Þegar ég var unglingur elti ég vini mína sem voru mér langtum fremri í meðferð mússíkinstrúmenta niður á Norðurbakka. Þar voru allskyns hljómsveitir með æfingaraðstöðu í yfirgefnu fiskvinnsluhúsnæði. Í sama húsi sá ég eitt magnaðasta leikhússtykki sem ég hef upplifað sem var Himnaríki, sett upp í kaffiaðstöðu Bæjarútgerðarinnar.

Seinna æfði ég skylmingar í einhverri þessarra gömlu skemma.

Þessi gömlu finngálkn voru öll rifin og í staðin kom blokkahverfi sem mér fannst lengi vel eins og klipptur hefði verið bútur úr Breiðholtinu og koppípeistaður inn í hjarta Hafnarfjarðar en ég er hægt og rólega að taka í sátt.

Ástæða þess að ég rifja þetta upp er sú að nú er verið að rífa Dverg.

Þessi gamla fúna trésmiðja hefur verið mörgum góðborgaranum þyrnir í auga um allnokkurt skeið, og réttilega þar sem húsið var foxljótt og illa við haldið.

En…þar héldu til páfuglar bæjarlífsins, listamennirnir sem breyta okkur úr hverfi í bæ.

Þeir sem fæðast því marki brenndir að þurfa að skapa og auðga mannlíf eiga sjaldnast fyrir kopp að kúka í, þeim er flestum sama þótt þakið leki, þeir setja bara undir lekann fötu og semja svo um hana ljóð. En því miður misstum við einn okkar albesta málara úr Dverg yfir í Garðabæ af öllum stöðum.

Ég veit að nútíminn kallar á hönnun og dísægn, en ég vona að við gleymum því ekki að Hafnarfjörður er þorp. Aðalsmerki þorpsins eru kvistar á lífsins tré og þessir kvistar þrífast hvorki né dafnast í grárri hannaðri steinsteypu.

Það er nóg af gömlu ljótu iðnaðarhúsnæði niðri við höfn.

Nennið þið plís elsku bæjarfulltrúar að festa kaup á nokkrum stykkjum og leigja þau billegt til fátækra listamanna og furðufugla svo við endum ekki jafn menningarsnauð og nágrannar okkar.

Ást og friður

Tommi