Ég heiti Valgerður, er 22 ára og skipa 5. sæti á framboðslista Vinstri grænna. Ég skrifa helst ekki  greinar í aðdraganda kosninga, hef nánast engan áhuga fyrir að lesa greinar frambjóðenda, þó margar fjalli um góð og gild málefni, að mati frambjóðendanna sjálfra. Greinarnar eru bara of margar og framsetning þeirra oft þurr.

Framboðsgreinar heilla einfaldlega ekki og auka síst löngun mína til að kynna mér málefnin frekar. Svona hugsar minn heili og ætli það sé ekki við hraða samfélagsins að sakast sem krefst upplýsinga hratt, skilvirkt og án frekari málalenginga.

Þægilegust eru stutt myndbönd, skjáskot, þar sem slengt er fram loforðum um gull og græna skóga ( í Hafnarfirði, knatthúsum og leikskólaplássum). Án þess að pæla í kostnaði eða framkvæmdum.

Við vitum þó flest að skynsamlegast er að kynna sér málin til hlýtar. En nennum við því?

Vinstri græn í Hafnarfirði vilja m.a. stofna ungbarnaleikskóla, gera skólamáltíðir fríar, bjóða nýfæddum hafnfirðingum barnabox og stofna húsnæðisleigufélag. Hljómar í mín eyru eins og fyrirmyndaraðstæður fyrir barnafjölskyldur. VG leggja þannig áherslu á að öllum séu tryggð sömu tækifæri til að fæðast og dafna áður en aðstæður til tómstundastarfs eru bættar. Sem er auðvitað mikilvægt bara ekki eins mikilvægt og jafnrétti til mannsæmandi lífs.

Við þurfum í það minnst að fylgjast með hverju er lofað og hvernig. Eru framboðin kannski öll með sömu hugmyndir en mismunandi útfærslur? Kannaðu hvaða aðferð hugnast þér best? Kannski bara best að láta sig hafa það að lesa greinar? Og ætli ég sé ekki búin að skrifa grein.

Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir