Flensborgarhlaupið ræst í sjöunda sinn.

Þriðjudaginn 19. september kl. 17.30 verður Flensborgarhlaupið ræst í sjöunda sinn. Fyrsta hlaupið fór fram árið 2011. Tíðindamaður Fjarðarpóstsins ræddi við Magnús Þorkelsson, skólameistara, um hlaupið.
Að sögn Magnúsar er hlaupið framlag skólans og nemenda hans til að efla íþróttir fyrir alla í Hafnarfirði.

„Það sem gerði málið enn ánægjulegra er að Hafnarfjörður er orðið Heilsueflandi samfélag og það tengir okkur enn sterkar við bæinn okkar.“ Allir Flensborgarar sem koma að þessu starfa sem sjálfboðaliðar.
Magnús sagði að strax eftir fyrsta hlaupið hefði verið ákveðið að gera það að áheitahlaupi og safna peningum til málefna sem snerta ungt fólk. „Við höfum styrkt íþróttafélagið Fjörð, Húsið í Stuðlabergi, Barnaheill, MS félagið og Kraft, sem er stuðningsfélag fyrir ungt fólk með krabbamein. Alls hefur safnast vel á aðra milljón króna. Núna ætlum við að styðja málefni sem við köllum Ungt fólk sem orðið hefur fyrir heilaskaða. Á taugasviði Reykjalundar fer fram endurhæfing fyrir þessa einstaklinga og við vitum að styrkur frá hlaupinu getur aðstoðað í sambandi við búnaðarkaup fyrir deildina.“

Hann útskýrir að flest þessi ungmenni hafi lent í slysum, jafnvel þar sem þau höfðu einfaldlega verið á röngum stað á röngum tíma. „Við þekkjum slík dæmi hér í skólanum, bæði tengd starfsmönnum og nemendum. Þetta er afskiptur málsstaður en okkur þykir skipta máli að aðstoða við að þetta unga fólk komist aftur út í samfélagið og geti fundið til sín á ný. Það er skelfilegt að búa við það að þú sért bara sett til hliðar vegna þess að þú varst einhvers staðar í bíl, jafnvel sem farþegi, og það er ekið á þig.“

„Ég hlakka bara til,“ segir Magnús. Hann segir þetta orðinn fastann viðburð hjá mörgum og í skólastarfinu. „Það eru fjölmargir sem styðja okkur með styrkjum, verðlaunum og fleiru. Við drögum úr heilmiklum verðlaunapotti og eru nokkrir mjög stórir vinningar komnir. Þegar ég tók hús á nokkrum stuðningsaðilum síðustu ára í vikunni sem leið var viðkvæðið iðulega: „Það var loksins að þú komst. Ég hélt þú værir búinn að gleyma okkur!“

Hann vonar að nágrannar og bílstjórar sýni málinu skilning en hlaupið er frá skólanum í átt að Kaldársseli. Þeir sem lengst hlaupa snúa við eftir fimm kílómetra. Það eru nokkur hættuleg gatnamót á leiðinni. Þar verða brautarverðir og eru bílstjórar beðnir að hlýða þeim og taka tillit til hlauparanna.

„Þetta er að mestu búið um kl. 18.30. Ég bind vonir við gott veður en norski veðurvefurinn spáir hæglætis veðri þennan dag. Það ætti að þýða góða þátttöku og þá getum við glaðst á afmælisdegi skólans, sem við höldum hátíðlegan 29. september nk. og afhent styrkinn vitandi það að við lögðum góðu málefni lið!“ sagði Magnús að lokum.

Sjá einnig flensborgarhlaup.is og hlaup.is.