Áslaug og Ólafía Hreiðarsdætur eru fæddar 8. desember 1968 og segja að móðir þeirra hafi fljótt greint mun á þeim þegar þær voru nýfæddar því önnur þeirra sparkaði meira en hin. Móðir þeirra stóð alltaf með þeim sem einstaklingum og neitaði að aðgreina þær með litum eða öðru í leikskóla. Eftir grunnskóla skildu leiðir vegna ólíkra áhugasviða en þær systur hafa alltaf verið miklar trúnaðarvinkonur.

„Mamma var beðin um að merkja okkur eða hafa okkur í sitt hvorum litnum af fatnaði þegar við vorum í leikskóla. Hún tók það ekki í mál. Áslaug er með fæðingarblett hjá öðru auganu og þannig var hægt að greina smá mun þegar við vorum litlar,“ segir Ólafía en misjafnt hafi verið hvort það hafi verið skemmtilegt eða íþyngjandi að vera líkir eineggja tvíburar. „Þegar við vorum yngri þá vorum við bara ávarpaðar sem tvíburarnir og spurt um okkur báðar í einu. Við vorum með svipuð áhugamál sem krakkar en þurftum dálítið að berjast fyrir því að fá að vera líka einstaklingar, sérstaklega meðal utan að komandi fólks,“ segir Áslaug. Þær hafi líka verið látnar sitja mjög langt frá hvor annarri í próftöku því svörin þeirra voru svo lík, enda lærðu þær alltaf saman undir próf.

Eins og sést voru þær systur afar líkar sem ungar hnátur. 

Börnin líka góðri vinir

Systurnar hafa ætíð verið mjög nánar og hjálpast mikið að. „Það er svipað með börnin okkar, þau eru mjög góðir vinir sín á milli. Elstu börnin okkar og næstelstu eru nánast jafngömul. Áslaug á 4 börn en ég tvö. Við skynjum þegar líka þegar hinni líður illa og tölum saman á hverjum degi, stundum oft á dag, “ segir Ólafía og bætir við að í seinni tíð finnist fólki í raun þær aðallega líkar í sínu hvoru lagi en síður þegar þær eru saman. Þegar önnur þeirra bjó um tíma erlendis, fyrir tíma Skype, þá gat símareikningurinn orðið hár því þær fundu báðar hvað vantaði mikið þegar svona mikil fjarlægð var á milli. En það var líka passað upp á heimsóknir oft á ári.

Svipaður stíll á heimilunum

Áslaug kennir við Kópavogsskóla og Ólafía starfar hjá Sýslumanninum á Höfuðborgarsvæðinu. Eftir grunnskóla fór Ólafía í FG og kláraði þjóninn en Áslaug í Flensborg, kláraði stúdentinn og fór síðar í Kennaraháskólann. „Ef ég ætti tvíbura í dag þá myndi ég vilja hafa þá í sínum hvorum bekknum. Ég hef tvisvar kennt tvíburum og ég tel það bara betra að skilja þá að. Annar tvíburinn er oftast meira ráðandi og hinn lúffar,“ segir Áslaug og líkindin með þeim systrum halda áfram að rifjast upp fyrir Ólafíu, sem segir: „Við erum með svipaðan stíl á öllu, heimilin okkar eru áþekk og eitthvað sinnið var önnur okkar búin að kaupa sér eitthvað fínt í búið og þá hafði hin keypt alveg eins án þess vita það. Við eigum líka eins bíl, Mazda jeppling! Ég keypti mér eins því hennar var svo flottur!“ segir hún og hlær. Annars segjast þær vera stoltar af því að vera tvíburar, þær stunda báðar golf og að sjálfsögðu saman!

 

Ný mynd: OBÞ. Eldri mynd úr einkaeigu.