IceTransport, umboðsaðili FedEx á Íslandi, tekur árlega við virkan þátt í verkefni er nefnist FedEx Cares. Árið 2016 og 2017 naut Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar góðs af. Rútur Snorrason, sölufulltrúi hjá IceTransport vill að eitthvað róttækt verið gert í húsnæðismálum Mæðrastyrksnefndnar og skorar á bæjaryfirvöld að standa sig betur.  

Starfsmenn IceTransport höfðu safnað fötum og barnaleikföngum sem fóru án efa á góða staði fyrir þessi jól. „Að auki vildum við færa Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar nokkur gjafakort í Bónus að heildarupphæð 50 þúsund krónur, sem nýttust vonandi vel fyrir hátíðina. Stjórn Mæðrastyrksnefndar Hafnarfjarðar skipa harðduglegar konur sem vinna alveg gríðarlega óeigingjarnt starf í þágu þeirra er minna mega sín. Það er því grátlegt til þess að horfa að þær hafi ekki viðunandi aðstöðu til að hjálpa þeim sem á þurfa að halda,“ segir Rútur. Hann vandar bæjaryfirvöldum ekki kveðjurnar og segir eitthvað mikið vera að ef ekki sé hægt að styðja betur við þetta mikilvæga starf.

Starfsfólk IceTransport hjá varningi sem þeir söfnuðu. 

Rétt og skiljanleg forgangsröðun

„Það þarf að sýna þessum málaflokki áhuga og stuðning í verki. Bæjaryfirvöld eiga sýna því áhuga að bæta umgjörðina til framtíðar. Það er skylda þeirra að veita fullan stuðning allt árið um kring og vera öðrum bæjarfélögum gott fordæmi er þetta varðar.“ Sem betur fer sé til fólk sem hafi kjark og hugrekki til að sækja sér hjálp eða aðstoð en því miður eru allt of margir sem hafa það ekki. Það er skylda okkar að ná til þessa hóps líka. „Þar sem kosningar eru á næsta leiti þá vona ég að kjósendur hafi þetta að leiðarljósi þegar það kýs sitt fólk til starfa. Til að almenningur fái áhuga á pólitík þá þarf það að sjá það í verki að forgangsröðun sé rétt og skiljanleg, með fólkinu sem veitir trú og traust,“ segir Rútur.

Forsíðumyndmynd: OBÞ. Hin myndin frá IceTransport.