MIMRA er listamannsheiti tónlistarkonunnar Maríu Magnúsdóttur sem gaf áður út plötu árið 2009. Nú er komin út platan Sinking Island og er hún sköpunarverk sem hefur átt sér langan aðdraganda. Tónlistina samdi MIMRA á nokkra ára tímabili meðan hún var búsett í Hollandi og Englandi. Hún er höfundur allra laga og texta ásamt því sem hún sá um alla upptökustjórn, hljóðhönnun og hljóðblöndun.

Platan var mastersverkefni Maríu í tónsmíðum og hljóðhönnun frá Goldsmiths University of London. Útgáfa plötunnar var fjármögnuð með Karolina Fund söfnun í sumar sem heppnaðist stórvel. Formlegur útgáfudagur var 9. október er platan nú aðgengileg í fullri lengd gegnum allar helstu streymiveitur ásamt því sem hún kemur út á vínyl og geisladisk. Um hljómjöfnun sá Bjarni Bragi Kjartansson og Sigríður Hulda Sigurðardóttir hannaði umslag.

Ást og missir

Sinking Island tekur hlustandann á ferðalag gegnum mismunandi stíla og stefnur tónlistar MIMRU. Rödd Maríu og einstök stílbrigði eru þráðurinn sem tvinnar saman heildarmynd þessa hljóðheims elektróníkur og orchestral hljóðfæra. MIMRA sækir innblástur í eigin reynslu og textar eru persónulegir. Sinking Island fjallar meðal annars um ást og missi og fær eyjan ljóðrænt að sökkva í söguþræði frá upphafi til enda plötunnar.

Útgáfutónleikar í Bæjarbíói

Útgáfutónleikar verða ásamt 12 manna hljómsveit í Bæjarbíó í Hafnarfirði þann 8. nóvember næstkomandi. Hljómsveitina skipa höfundurinn og söngkonan María Magnúsdóttir, Börkur Hrafn Birgisson á gítar, Þorvaldur Þór Þorvaldsson á trommur og Róbert Þórhallsson á bassa, Samúel Jón Samúelsson á básúnu, Sylvía Hlynsdóttir og Elvar Bragi Kristjónsson á trompet, Sólveig Moravek á klarinett og saxófón, Unnur Birna Björnsdóttir og Matthías Stefánsson á fiðlur, Karl Peska á víólu og Margrét Árnadóttir á selló. Miðasala fer nú fram gegnum tix.is.

Einnig kemur MIMRA fram nokkrum sinnum í kringum Iceland Airwaves hátíðina, þá í sóló setti ásamt trompetleikara, m.a. í Lucky Records, Loft Hostel og í Norræna Húsinu.

Tenglar á samfélagsmiðla:

Vefsíða  Facebook  

Soundcloud  Instagram  Play With Fire (official video)