Bæjarstjórn Hafnarfjarðar fjallaði um það alvarlega ástand sem ríkir í umferðaröryggi bæjarbúa og þeirra sem og sveitarfélagið fara á síðasta bæjarstjórnar fundi sínum í vikunni. Það þykir orðið mjög brýnt að framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar innan Hafnarfjarðar verði lokið. Enda ekkert annað sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem býr við það að þjóðvegur liggi í gegnum bæjarfélagið með aðeins eina akrein í sitt hvora áttina.

Eftirfarandi bókun var samþykkt einróma á fundinum: „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar lýsir yfir vonbrigðum með að ekki sé tryggt fjármagn á árinu 2018 við áframhaldandi framkvæmdir við Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar. Jafnframt er skorað á þingmenn að sjá til þess að framkvæmdum verði forgangsraðað í samræmi við öryggissjónarmið samgönguáætlunar og því beri að ljúka framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar innan Hafnarfjarðar. Unnið verði skv. tillögu um skiptingu framkvæmda við Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar sem samráðshópur Vegagerðarinnar og Hafnarfjarðarbæjar hefur lagt fram. Sem fyrsta áfanga verði tryggt fjármagn á árunum 2018 og 2019 til að ljúka framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi að mislægum gatnamótum við Krýsuvíkurveg. Hönnun á þessum vegakafla liggur fyrir. Síðan verði tryggt fjármagn í samgönguáætlun á árunum þar á eftir til að ljúka framkvæmdum við Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar skv. framangreindri tillögu.“

Þá ritaði bæjarstjóri bréf til þingmanna Suðvesturkjördæmis, fjárlaganefnd og Samgönguráðherra þann 20. desember sl. um sama mál. Þar minnti hann á að á íbúafundi um samgöngumál í Hafnarfirði í haust var skorað á stjórnvöld að tryggja áframhaldandi úrbætur á Reykjanesbraut í Hafnarfirði. Tryggt yrði að framkvæmdir við gatnamótin og hringtorgin á kafla frá Kaplakrika að Lækjargötu hæfust á þessu ári og að jafnframt verði lokið við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldársselsvegi að mislægum gatnamótum á Krísuvíkurvegi.