Beiðni Fjarðarpóstsins um að Hafnfirðingar hefðu augu opin vegna umslags með ferðasjóði einstæðrar móður og dætra hennar tveggja, bar þann árangur að hjartahlýr maður sendi póst til ritstjórans og vildi styrkja litlu fjölskylduna um þá fjárhæð sem týndist, en umslagið hefur ekki komið í leitirnar. Móðirin unga vill koma á framfæri kæru þakklæti til allra þeirra sem hafa dreift beiðninni. Hún er harðákveðin í að ef umslagið finnst þá ætlar hún að gefa peninginn til góðgerðarmála.  

Umslagið, sem innihélt dágóða upphæð ferðasjóðs og tvo bleika miða með óska-áfangastöðum dætra konunnar, fauk líklega úr vasa móðurinnar á vindasömum gærdeginum, þegar hún var á leið sinni frá Holtinu hér í Hafnarfirði og í Norðurbæinn til að greiða fyrir væntanlega utanlandsferð mæðgnanna. Móðurinni var eðlilega brugðið og var miður sín og leitaði hjálpar á einni íbúasíðu bæjarins. Þaðan kom svo ábending til Fjarðarpóstins.

Yfir 50 þúsund hafa séð beiðnina á Facebook og hátt á áttunda hundrað hafa deilt henni. Við höfum verið í sambandi við móðurina undanfarinn sólarhring og hún óskar nafnleyndar, sem og maðurinn sem ákvað að styrkja hana. Við virðum það að sjálfsögðu.

Mynd/OBÞ