Alls 240 manns troðfylltu líkamsræktarstöðina HRESS sl. laugardag þegar árlegir Hressleikar fóru fram. Hátt í tvær milljónir króna söfnuðust að þessu sinni. Eftir keppnina afhenti Linda Björk Hilmarsdóttir, annar eiganda stöðvarinnar, fjárhæðina Fanneyju Eiríksdóttur og fjölskyldu hennar.

Átta 30 manna lið tóku þátt að þessu sinni og skörtuðu að venju litríkum búningum og mikil stemning var í hópnum, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Í ár var ákveðið að styrkja Fanneyju og fjölskyldu, en Fanney greindist með leghálskrabbamein á 29. viku þegar hún gekk með son þeirra Ragnars Snæs Njálssonar, Erik Fjólar. Hann liggur á vökudeild og Fanney er í lyfja- og geislameðferð. Fyrir eiga þau dótturina Emilý Rósu, þriggja ára. Ragnar Snær hélt tilfinningaþrungna þakkarræðu við afhendingu styrkjarins og samkenndin í salnum var hlý og nánast áþreifanleg, enda framtakið afar fallegt og til fyrirmyndar.


Myndir: Kristján Ari.