Um 700 bæjarbúar á öllum aldri sýndu hinu rúmlega 90 ára gamla húsi St. Jósefsspítala mikinn áhuga um sl. helgi. Skipulagðir hópar voru leiddir um bygginguna og saga hennar sögð. Fjarðarpósturinn tók púlsinn á viðstöddum sem fannst mörgum afar blendin tilfinning að koma þarna inn, hvort sem um var að ræða í fyrsta sinn eða ekki.

Um 700 manns komu og skoðuðu bygginguna. 

Greina mátti einstaka tár á hvarmi þeirra sem þarna höfðu ýmist starfað, náð bata, heimsótt eða kvatt kæran ástvin. Fólk var almennt sammála um að byggingin væri afar falleg og hana ætti sannarega að nýta. Ýmsar skoðanir voru meðal gesta um hvers konar rekstur skyldi þarna verða í framtíðinni, en flestir sem við ræddum við nefndu hjúkrunarheimili, staður fyrir hvíldarinnlagnir, heilsugæslu eða einhvers konar aðbúnað þar sem hægt yrði að hlúa að elstu borgurunum. Þó komu einnig hugmyndir um tónleikahald eða viðburði í kapellunni en enginn vildi fá þarna hótelrekstur og ein tók sterkt til orða: „Ekki hótel, takk fyrir!“

Nóg var að gera hjá þeim sem leiðbeindu gestum um húsið og sögðu sögu þess. 

Byggingasaga og rekstur

St. Jósefsspítali var byggður í þremur áföngum auk síðari tíma viðbygginga. Húsið er 2.829 fm, kjallari, tvær hæðir og ris og lóðin er 4467 fm. Auk kapellu og geymsluskúra á lóð. Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði húsið og Ásgeir G. Stefánsson byggði það á skömmum tíma árið 1926. Árið 1954 var spítalinn stækkaður í norður og byggt yfir kapelluna. Sigurgeir Guðmundsson, skólastjóri Iðnskólans í Hafnarfirði, teiknaði viðbygginguna, sem og þá sem gerð var 1973-1978. Meðal annars voru útbúnar nýjar skurðstofur og íbúð fyrir nunnur St. Jósefsreglunnar á efri hæðum.

Rekstur hefjist innan þriggja ára

Nunnurnar sinntu heilsugæslu og hjúkrun í spítalanum sjálfum og ráku einnig skóla fyrir ung börn frá 1938-1965. Spítalinn var gerður að sjálfseignastofnun árið 1978 og þá hættu nunnurnar rekstri. Ríkið (85%) og Hafnarfjarðarbær (15%) keyptu húsið árið 1987. Árið 2006 var St. Jósefsspítali sameinaður Sólvangi. Heilbrigðisþjónustan þarna lagðist alfarið af árið 2011 og öll starfsemi fluttist á Landspítala. Hafnarfjörður keypti loks húsið allt í júní í ár og skuldbindur sig til að reka almannaþjónustu í 15 ár og hefja rekstur innan þriggja ára. Starfshópur skilar skýrslu um framtíðarnýtingu hússins í október nk.

Starfsfhópur um um mótun framtíðarstefnu um notkun St. Jósefsspítala en hann skipa Sigríður Björk Jónsdóttir, Karl Guðmundsson, Guðrún Berta Daníelsdóttir formaður nefndarinnar og Sigríður Kristinsdóttir sviðstjóri stjórnsýslusviðs sem er verefnisstjóri hópsins. Á myndina vantar Elvu Dögg Ásudóttur Kristindóttur

Ósköp tómlegt á að líta. 

Myndir: Olga Björt.