Guðmundur Fylkisson lögreglumaður og Hafnfirðingur hlaut viðurkenninguna Hvunndagshetjan þegar Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins voru veitt fyrir skömmu. Guðmundur hefur í starfi sínu leitað að týndum börnum undanfarin fjögur ár og það hefur verið meira en nóg að gera hjá honum. Við hittum Guðmund og ræddum við hann um starfið hans og hugsjónirnar, en honum er m.a. afar annt um fugla og eldri borgara.

Lögreglan Guðmundur.

„Ég viðurkenni að það er dálítið sérstök tilfinning að fá viðurkenningu fyrir að vinna vinnuna mína, jafnvel þótt ég sé að gera meira en ég á að gera. Það er bara í eðli mínu. En það er alltaf gott að fá klapp á bakið þótt dálítið haverí fylgi í kjölfarið í formi öðruvísi álags og truflana,“ segir Guðmundur hlýlega og á auðmjúkan hátt, en hann hefur áður fengið viðurkenningu af svipuðu tagi fyrir að bjarga, ásamt öðrum, tveimur börnum út úr brennandi húsi. Hann segir þetta þó mjög fína viðurkenningu fyrir starf lögreglunnar yfirleitt. „Við erum bara í vinnunni að bregðast við aðstæðum og vinnudagurinn minn er langt frá því að vera frá klukkan 8 til 16.“

Leitaði 20 sinnum að 12 ára barni

Árið 2017 bárust 250 leitarbeiðnir af týndum börnum til lögreglunnar og það sem af er ári eru á níunda tug beiðna komnar vegna á fimmta tug einstaklinga. 40-50 leitarbeiðnir vegna nýrra einstaklinga koma á hverju ári, en restin er vegna sömu einstaklinga og áður hefur verið leitað að. Annað hvert ár er Hafnarfjörður í 2. sæti á eftir Reykjavík, þrátt fyrir að vera þriðja fjölmennasta sveitarfélagið. Í erindi sem Guðmundur hélt þegar Hvatningaverðlaun Foreldraráðs Hafnarfjarðarbæjar voru veitt fyrir skömmu sagði hann að kynjaskipting þeirra sem leitað er að sé nokkuð jöfn. Fleiri stelpur týnist þó á fyrri hluta árs og strákar á seinni hlutanum, einhverra hluta vegna. „Það er óeðlilegt og óásættanlegt að ég sé að leita 20 sinnum að 12 ára barni á 8 mánuðum. Þá er eitthvað að í kerfinu okkar. Við erum bara neyðarrúræði,“ sagði Guðmundur. Þá séu Barnaverndarstofa (BVS) og Barnavernd á vegum sveitarfélaganna með ólík hlutverk. Þau síðarnefndu útvegi skammtímaúrræði en BVS notar Stuðla, sem þjónusti allt landið.

Guðmundur þegar hann hélt fyrirlesturinn fyrir skömmu.

Auglýsing alltaf örþrifaráð

Guðmundur segir alltaf örþrifaráð að auglýsa eftir týndum börnum í fjölmiðlum því þau eigi nógu erfitt fyrir að það það bætist ekki ofan á að birta nöfn þeirra og myndir af þeim opinberlega. „Það er fólk með annarlegar hvatir sem reynir að tengjast þeim og þau verða fyrir ákveðnu áreiti,“ sagði Guðmundur m.a. í erindinu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi þurft að endurskoða sína ferla og hvað hægt væri að gera betur, því að meðaltali tók átta tíma að byrja að leita að barni eftir tilkynningu foreldra. Sá tími hafi styttst í 15 mínútur.

 

193. gr. Almennra hegningarlaga 19/1940.

Barnsránsákvæði. Hver, sem sviptir foreldra að aðila valdi eða umsjá yfir barni, sem ósjálfráða er fyrir æsku sakir, eða stuðlar að því , að það komi sér undan slíku, skal sæta  fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt.

 Þessi grein er á bakhlið nafnspjalds Guðmundar og hann lætur vita að þetta ákvæði sé undir þegar hann leitar að barni hjá einhverjum. Það dugar oft til þess að fá börnin í hendurnar.

 

Börn finni skjól heima

Ungi brunavörðurinn. Guðmundur segir það hafa verið góðan grunn fyrir störf sín síðar.

Guðmundur segir skipta miklu máli að börn finni að þau geti leitað til foreldra sinna þegar þeim verður eitthvað á. „Við verðum að leyfa þeim að gera mistök og læra af þeim án þess að allt fari á hvolf. Þau verða að geta komið til okkar til að sagt: Mér varð á. Við hjálpum þeim að takast á við það til að minnka líkur á að það gerist aftur. Þau byrgja svo oft hlutina inni í sér og þá er meiri  hætta á að þau leiti að einhvers konar deyfingu. Ræðum ekki við þau þegar við erum reið eða hrædd. Sýnum þeim að við séum ánægð að fá þau heim og ræðum við þau yfirvegað daginn eftir, ef þau koma seint heim eða í slæmu ástandi. Það þarf ekki nema eitt rangt orð og foreldrar missa traust barnanna. Fögnum því þegar börnin leita til okkar.“

Aðspurður segir Guðmundur að almennt sé viðhorfið til starfs hans jákvætt. Hann lendi sjaldan í leiðindum og honum stafi ekki ógn af undirheimunum. „Ég fæ spurnir af því stöku sinnum að það væri nú ráð að berja mig en þá eru það bara einhverjir í vímu og rugli og búnir að peppa hvern annan upp. Ég myndi ekki endast í þessu starfi ef ég þyrfti að vera stöðugt var um mig.“ Hann aki um á bíl með fjarskiptabúnað sem sýni alltaf hvar hann er staddur.

Þessa fallegu mynd tók Þröstur Nálsson. Guðmundur er eiginlega hálfgerður andapabbi með börnin sem hann leitar að.

Kemur sér ekki í óþarfa hættu

„Það er mitt öryggi og barnanna sem ég sæki að ég kveiki alltaf á upptöku þegar þau koma inn í bílinn. Það er mjög einfalt að segja að ég hafi sagt eitthvað eða gert en það er allt á upptöku. Svo er ég með táragas, kylfu og skothelt vesti. Ef ég þarf þá kalla ég á aðstoð og ef ekki er von á henni þá bara bakka ég út úr aðstæðunum og reyni aftur seinna. Ég ber líka ábyrgð á mér og mínum börnum. Ég kem mér ekki í óþarfa hættu og hleyp ekki á eftir fólki. Það þýðir ekkert annað en að ná til krakkanna og tala við þau. Þau koma stundum að bílnum og semja um að ég sjái að það er í lagi með þau og geti sagt foreldrunum það. Ég spyr þá hvenær þau ætla að fara heim og að allir hinir lögreglumennirnir viti að þau séu týnd og þeir hlaupa á eftir þeim. Þau finna kannski sum traust sem þau finna ekki heima hjá sér,“ segir Guðmundur.

Ekkert inngrip eftir 18 ára aldur

Oftast eru foreldrar komnir í algjört þrot og mikið búið að ganga á þegar leita á barna þeirra. „Ef það er eitthvað refsivert í gangi þegar við sækjum börn, þá fylgjum við því eftir. Þegar hafa náð 18 ára aldri þá eru þau sjálfráða og við getum ekkert gert fyrir foreldrana. Þá hefur barnið kosið ákveðinn lífsstíl og ég brýt af mér ef ég fer að grípa inn í það. Við getum ekki gefið foreldrum upplýsingar um hvar börnin eru en getum komið skilaboðum á milli.“ Rafræni heimurinn sé orðinn þannig að allt geymist sem fer á internetið en lögreglan taki alltaf út af sínum vef myndir af börnum þegar þau finnst. „Fjölmiðlar eru ekki nógu samstarfsfúsir hvað þetta varðar og halda fréttunum inni hjá sér. Nú á að breyta persónuverndarlögum og þar er ákvæði um að persónulegu spor séu tekin út ef einhver óskar þess. Fjölmiðlar verða að athuga þetta.“

Guðmundur ungur að árum með föðurbróður sínum í ferðalagi norður á Ströndum. Þar er uppruni Guðmundar.

Fuglavinurinn

Þarna gæða fuglarnir sér á korni sem Guðmundur kom með.

Guðmundur segir suma fuglana vera farna að þekkja hann.

Þarna stökk stálpaður ungi upp á bakkann til að éta úr hendi dóttur Guðmundar. Traustið!

Aligæsir sem voru á Læknum og tóku nokkra unga í fóstur.

Þarna komast andarungarnir ekki upp aftur.

Mávurinn og endurnar berjast um ætið og völdin.jpg

Þarna var búinn til ungastigi, þar sem þeir gátu labbað upp og niður. Varð að n.k. ungaleiksvæði.

Kolla sátt við korn og veitir ekki af orkunni sem þarf til að halda ungum sínum lifandi.

Svartþrestir í sturtu í Læknum.

Ungavörn komin við Strandgötu en hugsanlega þarf að bæta við hana.

Hópur frá Vinnuskólanum við ungabjörgun.

Álftin full frek á brauðið og nartaði í litla fingur. Mynd/Rúnar Björnsson.

Þessari kollu var fylgt frá Víðistaðatúni og niður að höfn.

Bara sumir mávar éta ungana

Þegar lækinn ber á góma er greinilegt hversu vel Guðmundur hefur kynnt sér lífríki fuglanna sem þangað koma (endur, gæsir og álftir) og honum er greinilega annt um þá og svæðið. „Þegar mávurinn byrjar að borða ungana þá eru það bara örfáir svartir vargar og það þarf að ná þeim. Meindýraeyðirinn sér um losna við þá sem eru með vesenið. En hér eru endur, álftir og gæsir,“ segir Guðmundur og rifjar upp: „Stíflurnar voru þannig að ef ungi fór fram af þá fór mamman líka og allir drukknuðu í ræsinu. Bærinn lét svo setja hleðslur sitthvoru megin við stífluna og það er orðið leiksvæði fyrir ungana núna í stað hættusvæðis. Okkur langar að búa til ungastiga (sbr. laxastiga) við Austurgötuna. Lífslíkurnar unganna eru þó miklu meiri fyrir ofan Reykdalsstífluna. Þar er minna af máv.“

Þessa fallegu drónamynd tók Guðmundur sjálfur, enda mikill drónamyndatökumaður.

Hér er annað sjónarhorn af læknum og umhverfi hans.

Mengandi kertafleytingar

Vinsælt er að fara niður að læk og gefa fuglunum að éta. Guðmundur segist ekki vera á móti því að fólk gefi brauð. „Það er svo mikil rennsli í þessum læk að það verður ekki mengun hérna eða grútur. Það er líka fínt að koma með útrunnið grænmeti. Hins vegar er ég á móti kertafleytingum hér og þær tengast alltaf einhverju sorglegu. Álbakkinn undan kertunum sekkur á endanum og myndar mengun hér. Þegar ég þreif hérna meðfram þá voru það þessir álbakkar sem ég helst hreinsaði. Einnig hef ég fundið reiðhjól, brjóstahaldara og plastflöskur. Svo eru það plastpokarnir með hundaskítnum í sem hundaeigendur fleygja út í læk. Þá er nú illskárra að fá bara skítinn eins og hann er. Við megum alveg huga að þessu. Það er hvort sem er ekkert smávegis sem fuglar skíta hérna í lækinn.“

Tengdu saman forstjóra og bæjarstjóra

Annað málefni sem stendur nærri Guðmundi nærri Sólvangur og málefni eldri borgara í Hafnarfirði. Guðmundur varð pólitískt skipaður í Öldungaráð Hafnarfjarðar, sem vinnur að málefnum eldri borgara. Í framhaldi af því voru stofnuð Hollvinasamtök Sólvangs og Guðmundur er einnig einn stjórnarmanna þar. „Við vildum passa að gamli Sólvangur yrði ekki skilinn eftir þegar byggja átti nýjan í Skarðshlíð. Við teljum okkur eiga dálítið í því að verið er að byggja nýja Sólvang við hliðina á gamla. Við tengdum saman forstjóra Sólvangs og Harald bæjarstjóra, fagmenn sem skilja hvorn annan.“

Einnig hafa samtökin gefið Sólvangi ýmislegt, síðast hljómtæki á hverja hæð og áður Lazy boy stóla sem hjálpa fólki að standa upp, dýnur og færðu heimilisfólki konfekt og Sherry eitt sumarið þegar tónleikar voru haldnir fyrir þau. „Það þarf bara að skoða hvort hægt sé að nota sundlaugina í Lækjarskóla fyrir eldri borgara líka. Við erum að drukkna í reglugerðum sem stoppa allt.“ Öldungaráð hefur einnig staðið að framtakinu Brúkum bekki, ásamt fleiri aðilun, og settir hafa verið niður bekkir um allan bæ svo að það séu 200-250 metrar á milli þeirra. M.a. í samstarfi við Iðnskólann í Hafnarfirði, en þá voru hannaðir bekkir úr trjágróðri frá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, fullorðins-, barnabekkir og borð.

„Það er ekki öllum gefið að sjá alltaf heildarmyndina. Guðmundur er lunkinn í því og finnur yfirleitt allt sem hann leitar að“ skrifaði félagi Guðmundar við þessa mynd.

Endalaus endurgjöf

Fyrst mestur tími Guðmundar fer þó í að leita að týndum börnum og hann er ekkert á leiðinni að gefast upp á því, er ekki annað hægt en að spyrja hann að endingu hvort sú vinna sé ekki á einhver hátt gefandi þótt hún taki á. „Jú, það er þessi endalausa endurgjöf. Þegar ég byrjaði í þessu var mér spáð svona 8 – 10 mánuðum áður en ég brynni út. Munurinn á mér og barnaverndarstarfsmanni er að sá síðarnefndi er búinn að vera í þungu ferli áður. Svo kem ég inn, skila barninu heim og þá tekur barnavend aftur við. Þeirra aðkoma er miklu þyngri. Foreldrarnir verða bara svo ánægðir að fá krakkana heim. Sumir krakkar er komnir út í svo mikla vitleysu að þeir verða fegnir að þeim er bjargað. Þeir þykjast vera í mótþróa en skilja brauðmola eftir til þess að finnast. Það er svo gefandi. Svo hittir maður kannski börnin sem ungt fólk í vinnu eða úti að labba með barnavagn. Þetta er eldsneytið mitt,“ segir Guðmundur brosandi.

 

Forsíðumynd: Olga Björt.

Aðrar myndir eru merktar, í eigu Guðmundar eða af síðunni Project Henrý.