Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti samhljóða bókun um skilyrði fyrir fjárveitingum til íþróttafélaga og þeirra sem bjóða upp á tómstundariðkun fyrir börn og unglinga. Meðal þeirra skilyrða er að félögin setji sér siðareglur, geri viðbragðsáætlanir og fræði sitt fólk um ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi.

 

Fjarðarpósturinn fékk Karólínu Helgu Símonardóttir, formann íþrótta- og tómstundanefndar Hafnarfjarðar, til að svara spurningum í kjölfar sláandi frásagna kvenna úr íþróttaheiminum.

Hvernig áhrif hafði það á þig sem konu, móður, íþróttakonu og í þínu starfi að lesa #metoo sögur frá konum í íþróttaheiminum?

Það eru mjög blendnar tilfinningar sem fóru um kroppinn þegar ég las reynslu íþróttakvenna. Ég fylltist fyrst og fremst stolti fyrir hönd kvennanna, þarna voru þær að frelsa sjálfar sig frá skömminni sem fylgir því að bera svona með sér. Ég get ekki sett mig í spor þeirra eða reynt að skilja hvernig það er að upplifa kynferðisofbeldi eða annað kynbundið ofbeldi sem íþróttakona en ég get þó staðið upp og klappað fyrir þeim, sagt þeim hvað mér finnst þær vera sterkar og flottar fyrirmyndir. En ég var líka sorgmædd og reið. Það er svo ólýsanlega ósanngjarnt að nokkur einstaklingur þurfi að upplifa ofbeldi, niðurlægingu eða skömm vegna þess að þjálfari þeirra eða annar einstaklingur sem þær/þeir báru traust til nýtti sér það og braut á þeim. En við það að rjúfa þögnina þá stoppar þetta vonandi. Sem formaður Íþrótta- og tómstundanefndar Hafnarfjarðar þá hef ég þá ábyrgð að taka við þessum sögum, hlusta á raddir kvennanna, horfa á aðstæður allra og bæta það sem þarf að bæta. En við megum heldur ekki gleyma að strákar/karlmenn verða líka fyrir kynbundnu ofbeldi þó svo að íþróttakonur hafi verið fyrstar til að standa upp og opna umræðuna.

Hvað hyggst þú gera í þessum málum?

Hér í íþróttabænum Hafnarfirði hefur verið lögð áhersla á jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins, líka í íþrótta- og tómstundum. Meðal annars var Hafnarfjaðarbær með þeim fyrstu sem fóru að veita viðurkenningu fyrir íþróttakonu og -karl á hverju ári. Á síðasta fundi nefndarinnar óskuðum við eftir því að fá upplýsingar um það hvaða ferlar fara í gang þegar koma upp mál tengd kynbundnu ofbeldi innan íþróttafélaganna, hvernig bærinn er að styðja við félögin í að uppræta kynbundið ofbeldi og hvernig það er hægt að stoppa þetta. Það er ýmislegt sem við getum gert, eitt af þeim fyrstu verkefnum sem ég fór af stað með sem formaður nefndarinnar var jafnréttisúttekt. Hún tengist #metoo umræðunni mjög mikið vegna þess að það hallar alltof mikið á hlut kvenna í íþróttum, stjórnarsetum, þjálfaramálum, æfingartímum og margt fleira. Ef við erum tilbúin að viðurkenna þetta, þá getum við bætt úr þessu. Ég tel að jafnréttisúttektin sé jákvæð, íþróttafélögin eru að standa sig vel í mörgu en það er líka eitt og annað sem þarf að bæta. Með úttektinni þá getum við séð hvað við þurfum að vinna með og hvernig.

Hvað þarf að þínu mati að gerast til að viðhorfsbreyting verði í samfélaginu?

Við þurfum að vera tilbúin að ræða hlutina, viðurkenna að það er margt sem þarfnast úrbóta. Um leið og allir hafa fellt múrana, horft í eigin barm og metið það sem má betur fara þá fyrst getum við byggt upp íþróttasamfélag þar sem jafnrétti er ofar öllu og kynbundiðofbeldi heyrir sögunni til. En í þessu er ekki nóg að horfa aðeins til íþróttafélaganna, sérsamböndin verða taka sig á, fjölmiðlar, þjálfarar og íþróttafólk líka. Það er enginn undanskilin að vera þátttakandi í viðhorfsbreytingum. Öll börn eiga skilið jöfn tækifæri óháð kyni.