Það kemur eflaust mörgum Hafnfirðingum á óvart að Hafnarfjarðarbær hefur um langt árabil veitt einna lægstu fjárframlög til íþróttamála af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Vitaskuld státar Hafnarfjörður almennt af góðri aðstöðu og stuðningi við íþrótta- og æskulýðsstarf en aðrir gera betur. Þessar staðreyndir koma fram í upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Auk niðurgreiðslna til frístundastarfs ungmenna og fjárframlags til reksturs íþróttafélaganna er í samningi Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH) og bæjarins kveðið á um þátttöku bæjarins við uppbyggingu íþróttamannvirkja.  Á síðasta þingi ÍBH var samþykkt tillaga sem gerir ráð fyrir að framlag bæjarins til nýrra framkvæmda verði um 500-600 milljónir króna á ári næstu fimm árin.  Það er í samræmi við þær upphæðir sem varið hefur verið að meðaltali árlega til nýrra íþróttamannvirkja síðustu 10-15 ár í Hafnarfirði!

 

Brýnt að bæta aðstöðu fyrir knattspyrnuiðkendur

Hafnarfjarðarbær leggur áherslu á stuðning við æskulýðs- og frístundastarf ungmenna 18 ára og yngri.  Í takti við þá staðreynd og forgangsröðun ÍBH hafa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt fram tillögu um að 300-400 milljónum króna yrði varið árlega næstu fjögur árin til að bæta aðstöðu fyrir iðkendur knattspyrnu í bænum.  Hátt í 2000 hafnfirsk ungmenni stunda íþróttina hjá Haukum og FH.  Á yfirstandandi fjárhagsári hefur verið gert ráð fyrir fjármunum til nýs gervigrass á Kaplakrika, íþróttasvæði FH, enda stenst aðstaðan þar ekki kröfur KSÍ um keppnisvelli á 20 ára gömlu ónýtu, gervigrasi sem þar er.  Tillaga Sjálfstæðisflokksins gerir ráð fyrir að bærinn leggi hærri upphæð til framkvæmdarinnar, það er að tjald verði byggt yfir nýja gerivgrasvöllinn.  Það teljum við skynsamlega fjárfestingu, bæði hvað viðhalds- og rekstrarkostnað varðar til framtíðar auk þess sem völlurinn nýttist mun betur en ella.  Á Ásvöllum, íþróttasvæði Hauka,  er ekkert skjól fyrir knattspyrnuiðkendur, hvorki til æfinga eða keppni yfir vetrarmánuðina.  Fótboltaiðkendum fer einnig ört fjölgandi þar, bæði vegna fjölgunar íbúa á helsta uppbyggingarsvæði bæjarins og almenns aukins áhuga á knattspyrnuiðkun, bæði meðal stúlkna sem drengja.

 

Framkvæmt fyrir eigið fé

Uppbygging á aðstöðu er mikilvægur þáttur í því að styðja við þennan uppgang. Þótt tillagan fjalli um aðstöðu fyrir knattspyrnu útilokar hún ekki fjármuni til annarra góðra verkefna í sveitarfélaginu eins og til viðhalds á fasteignum bæjarins, félagslega húsnæðiskerfisins, menningarmála, annarra íþróttagreina eða niðurgreiðslu skulda. Tillagan er þó eilítið frábrugðin framkvæmdatillögum fyrri ára í Hafnarfirði þar sem slegin voru lán fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja.  Ábyrg fjármálastjórn er nú í fyrirrúmi og gert ráð fyrir því að byggt verði fyrir eigið fé bæjarfélagsins. Auknar tekjur og umbætur í rekstrinum hafa sem betur fer skilað góðum árangri og aukið svigrúm til uppbyggingar og bættrar þjónustu á fjölmörgum sviðum.  Á þeim forsendum er tillagan lögð fram.

 

Rósa Guðbjartsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.