Keppendur frá Badmintonfélagi Hafnarfjarðar stóðu sig vel á Meistaramóti Íslands í badminton sem fram fór í TBR húsunum við Gnoðarvog um liðna helgi. Erla Björg Hafsteinsdóttir og Halla María Gústafsdóttir urðu Íslandsmeistarar og auk þess komu átta silfurverðlaun í hlut BH-inga.

Erla Björg ásamt meðspilara sínum Kristófer Darra.

Erla Björg, sem keppir í meistaraflokki, varð Íslandsmeistari í tvenndarleik ásamt Kristófer Darra Finnssyni úr TBR. Hún vann einnig silfurverðlaun í tvíliðaleik kvenna en þar lék hún með Snjólaugu Jóhannsdóttur úr TBR. Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill Erlu í tvenndarleik í meistaraflokki en hún hefur tvisvar sigraði í tvíliðaleik, 2009 og 2014.

Halla María.

Halla María Gústafsdóttir varð Íslandsmeistari í einliðaleik í A-flokki kvenna en í öðru sæti var BH-ingurinn Sólrún Anna Ingvarsdóttir. Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill Höllu í fullorðinsflokki.
Aðrir silfurverðlaunahafar BH voru Steinþór Emil Svavarsson og Gabríel Ingi Helgason í tvíliðaleik í B-flokki karla, Anna Ósk Óskarsdóttir og Ingunn Gunnlaugsdóttir í tvíliðaleik í B-flokki kvenna og Kristján Kristjánsson og Rakel Rut Kristjánsdóttir í tvenndarleik í B-flokki.
Myndir aðsendar.