Tjöld_3Undirbúningur World Scout Moot í fullum gangi

Nokkur þúsund erlendir skátar munu væntanlega sprengja almenningssamgöngukerfi Reykjavíkurborgar í lok júlí nema komi til sérstakra aðgerða. Skátarnir koma til landsins til þess að taka þátt í alþjóðlegu skátamóti World Scout Moot. Þeir  gista í nokkra daga í ellefu skólum á höfuðborgarsvæðinu. Mótssvæðið er í Laugardalshöll og eiga margir þeirra því langa leið fyrir höndum frá næturstað til mótsstaðar ef þeir geta ekki nýtt sér strætivagna borgarinnar.

20090720_Roverway09_Tobi_8450Skátarnir hafa fengið 11 skóla víðsvegar um höfuðborgarsvæðið til að hýsa erlendu gestina fyrir og eftir mót þó flestir séu staðsettir í Reykjavík. Kynnisferðir hafa samþykkt að aka skátunum frá Keflavík til skólanna við komuna til landsins og sjá um akstur úr skólum yfir í Laugardalinn þar sem almennissamgöngukerfið ræður ekki við það. Hermann Sigurðsson framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta segir það mikilvægan stuðning við erlendu gestina þar sem margir þeirra koma til landsins með þungar byrgðar. Hermann segir að búið að sé að meta samgönguþarfir skátanna í borginni út frá fjölda gesta á hverjum gististað fyrir sig. Í kjölfarið af því var haft samband við Strætó um möguleikana á því að fjölga ferðum á álagstímum til þess að tryggja að skátarnir komist um höfuðborgarsvæðið og er það í skoðun hjá þeim.

hermann_skatar„Sem betur fer eru margir af skólunum, sem hýsa skátana, ekki langt frá mótssvæðinu en í nokkrum tilfellum er hins vegar drjúgur spotti sem skátarnir þurfa að ganga, t.d. þeir sem búa í skólanum í Kópavogi,“ segir Hermann.

Þetta er stærsta skátamót sem hefur farið fram á Íslandi og stærsta mót á vegum heimshreyfingarinnar fyrir þetta aldursbil.

Hermann segir undirbúning vera í fullum gangi  og í mörg horn sé að líta. Mótið hefst í Laugardalshöll að morgni 25. júlí en síðan munu skátarnir dreifast um landið þar sem þeir munu meðal annars sinna sjálfboðastörfum í nokkra daga. Þeir munu skilja eftir sig um 20.000 vinnustundir í sjálfboðavinnu.

Umfangsmiklar framkvæmdir eiga sér stað á Úlfljótsvatni þessa dagana en þar munu allir skátarnir dvelja síðustu fjóra daga mótsins. Verið er að smíða 50 sturtur, koma upp salernisaðstöðu, tengja rafmagn, laga stíga, setja upp mötuneyti, setja upp matarúthlutun í formi verslunar, og undirbúa mótssvæðið fyrir tjaldborg með skátum frá alls 106 löndum. Mótsslit eru 2. ágúst.

Tjöld_1

Frekari upplýsingar um World Scout Moot veitir:

Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta

GSM 6933839

hermann@skatar.is

Myndir: aðsendar. Hermann er í gulu vesti með dætur sínar í fanginu.