Rauði krossinn í Hafnarfirði og Garðabæ þakkar kærlega þeim fjölmörgu sem hafa komið að starfi deildarinnar á liðnu ári og hlakkar til áframhaldandi samstarfs.

Verkefni deildarinnar eru margvísleg. Deildin býður upp á heimanámsaðstoð fyrir nemendur í 1-10 bekk í samstarfi við bókasafnið. Heimsóknavinir heimsækja fólk í um klukkustund á viku. Meginmarkmið heimsóknar er að veita nærveru og hlýju en misjafnt er hvað heimsóknavinir og gestgjafar gera saman. Sumir hittast og spjalla yfir kaffibolla, aðrir spila eða fara til dæmis í bíltúr.

Föt sem framlag prjónahópur hittist vikulega og prjónar, heklar og saumar ungbarnaföt og útbýr ungbarnapakka sem eru sendir til fátækra barna í Hvíta-Rússlandi.
Karlar í skúrum er nýtt verkefni þar sem karlmenn hafa möguleika á að hittast, spjalla og vinna að ýmsum sameiginlegum verkefnum. Annað nýtt verkefni sem er í þróun heitir Tækifæri. Það er fyrir einstaklinga yngri en 30 ára sem af einhverjum ástæðum eru ekki á vinnumarkaði eða í námi. Verkefnið byggir á að hver einstaklingur setji sér markmið og leitist við að ná þeim. Verkefnið er ætlað að auka sjálfstraust, valdefla þátttakendur og koma í veg fyrir félagslega einangrun.


Deildin sér um félagsstarf fyrir hælisleitendur á öllu höfuðborgarsvæðinu og skipuleggur í samvinnu við sjálfboðaliða og hælisleitendur margvíslega viðburði eins og opið hús, konumorgna, tungumálakennslu og heimsóknir.
Einnig eru haldin ýmis námskeið, svo sem skyndihjálparnámskeið, Börn og umhverfi og námskeið í sálrænum stuðningi.
Í sama húsi og deildin er Rauðakrossbúðin en þar er hægt að gera góð kaup á fatnaði og skóm.

Starf Rauða krossins er borið uppi af sjálfboðaliðum. Við erum alltaf að leita að fleirum til að taka þátt í verkefnunum okkar. Hafðu samband eða kíktu við í Strandgötu 24 ef þú hefur áhuga á að leggja okkur lið.

hafnarfjordur@redcross.is
Sími: 570 4221

Fyrir hönd Rauða krossins í Hafnarfirði og Garðabæ
Hulda Margrét Rútsdóttir verkefnastjóri