Ég starfa mikið við það að horfa á tölvuskjá, stundum langt fram á kvöld. Ég pikka inn og móta texta, vinn í myndum, sinni skilaboðahólfinu og tengslanetinu mínu og kem efni á framfæri. Í þessu felst oft heilmikil sköpun, enda valdi ég þennan starfsvettvang og námið þar á undan.

Það er gott að fara í flæði þegar verkefni eru unnin. Stundum er talað um að vera í essinu sínu undir slíkum kringumstæðum. Þá haldast í hendur sköpun og miðlun. Í mínum störfum verð ég oft trufluð í slíku flæði vegna utanað komandi áreitis. Það er líka hluti af starfinu að vera til staðar.

Þess vegna fækkaði ég einn daginn sumum áreituþáttunum sem ekki skiptu eins miklu máli og flest annað. Það voru tilkynningar frá samfélags- og samskiptamiðlum í símann minn. Núna veit ég bara jafn óðum þegar einhver hringir í mig eða sendir mér sms. Ég veit ekkert hvað er að gerast á hinum miðlum fyrr en þegar ég kíki inn á þá.

Hingað til hefur enginn kvartað.

Þetta heitir tímastjórnun. Ég fór á slíkt námskeið á vegum fyrrum vinnuveitanda fyrir mörgum árum. Þá snerist tímastjórnunin aðallega um tölvupóst og að skoða hann kannski á klukkutíma fresti; að koma ekki fólki upp á að vera endilega svarað strax.

Áreiti eykst stöðugt og það er fólk í vinnu um allan heim við að búa til spennandi áreiti til að fanga athygli okkar. Þá förum við auðveldlega úr flæðinu sem er svo nauðsynlegt til að fylgja skipulagi og framkalla ánægju yfir því að skila af sér góðu verki.

Það tók mig 11 mínútur að setja saman þessa grein – í flæði. Enginn hringdi á meðan og enginn sendi sms.