Á jarðhæð gömlu Kaupfélagsblokkarinnar við Miðvang fer fram metnaðarfull handverksvinna þriggja kvenna, þeirra Brynju R. Guðmundsdóttur, Herborgar Sigtryggsdóttur og Friðbjargar Kristmundsdóttur. Fjarðarpósturinn kíkti í heimsókn til Mýró.

Áður fyrr var rekin margs kyns þjónusta á þessum stað, s.s bakarí, apótek og sjoppa og var þá töluverður umgangur. Þá var Kaupfélagið eða Samkaup í húsnæðinu við hliða, þar sem Nettó er núna. „Í þessu 167 fm húsnæði fer fram heilmikil framleiðsla. Við erum þrjár með aðstöðu og ein okkar, Herborg, er með herbergi inn af stóra rýminu. Hún rekur sitt eigið fyrirtæki, Handíðir.is og er með opið 1 laugardag í mánuði en rekur einnig vefverslun. Við Brynja framleiðum undir heitinu Mýró,“ segir Friðbjörg, en hingað til hafa þær aðallega selt vörur á Skólavörðustígnum í Reykjavík.

Stórt áhugamál beggja

Brynja starfar sem lífeindafræðingur hjá Landspítalanum en Herborg er vefnaðarkennari sem starfar í banka en Friðbjörg er ekki í dæmigerðri 9-5 vinnu og ver því miklum tíma hjá Mýró. „Þetta er stórt áhugamál okkar beggja en við viljum jafnframt geta selt það sem við framleiðum. Við þurfum ekki að framleiða fyrir okkur. Það er ekki hægt að eiga endalaust af treflum og teppum og dúkum,“ segir Brynja. Þær Friðbjörg ná vel saman og gera margt saman. „Við förum oft til útlanda á námskeið, sýningar og annað til að sjá og kynna okkur nýjungar í þessum bransa. Við keyptum okkur vefstóla að utan og kaupum einnig garn þaðan.“

Kynna sér nýjungar erlendis

Brynja og Friðbjörg eru í samstarfi við erlendar konur og sem hafa komið til Íslands. „Við vorum með gesti hér í vor og ferðuðumst með þeim um landið til að kynna fyrir þeim nýjungar hér á landi. Við förum á þeirra slóðir í vor og höfum oft farið áður. Erum nýkomnar heim af ráðstefnu í Svíþjóð,“ segir Friðbjörg og þegar hún er spurð um markhóp þá segir hún hann mjög víðan. „Það má ýmislegt sjást á íslenskum heimilum í dag sem ekki mátti sjást fyrir örfáum árum. Það þarf ekki allt að vera hvítt og sterilískt. Það má sýna liti og handverk og það er góð þróun,“ segir hún að lokum.

Opnunartími Mýró er á miðvikudögum á milli kl. 17 og 19. Svo er alltaf hægt að hringja í okkur til að koma og skoða eða koma með fyrirspurnir og óskir. Frávik verða tikynnt á Facebook síðunni. Brynja: 861-2662, Friðbjörg: 897-6459, Herborg: 699-5340.

Myndir: Olga Björt.