Nemendur og starfsfólk á leikskólanum Arnarbergi gerðu sér lítið fyrir og breyttu fataklefa í geim með öllu tilheyrandi á Degi leikskólans í síðustu viku. Fjarðarpósturinn leit við og ræddi stuttlega við Aðalheiði Elínu Ingólfsdóttur sem er starfsmaður leikskólans og hugmyndasmiður þemans í ár. Einnig var sjávarþema í annarri deild og búið var að skreyta utandyra líka. 

Hversu miklu máli skiptir leikskóladagurinn? „Mér finnst hann skipta miklu máli og gaman að börnin geti föndrað, skapað og valið sér þema. Það væri samt gaman ef allir leikskólar kæmu sér saman um þema. Við tókum okkur saman tvær deildir, Reitur og Krókur, og breyttum fataklefanum í geiminn. Þetta tók tvær vikur í föndri og frístundum. Notuðum hvíldina í að hengja ruslapoka upp í loftið, hylja ljósin og allt. Mjög skemmtilegt,“ segir Aðalheiður. Börnin sýndu þessu mikinn áhuga. „Ég kveikti á smá draugatónlist og þau héldu að það væru komnar geimverur að tala. Þau vildu helst vera hérna frammi endalaust. Á eldri deildunum voru börnin að læra um pláneturnar og teikna þær og læra úr hverju þær eru gerðar. Elstu börnin hjálpuðu þeim yngri að klippa út og föndra. Þetta er mjög góður skóli og gott samstarf á milli deildanna. Ég hvet alla leikskóla til að sinna þessum degi, gera sem mest úr honum og hafa gaman af.“

Myndir: OBÞ