Bæjarstjórn Hafnarfjarðar felldi í kvöld tillögu um að byggja tvö knatthús í bænum fyrir samtals á annan milljarð króna næstu fjögur árin. Sjálfstæðismenn lögðu tillöguna fram en bæjarfulltrúar Bjartrar framtíðar, sem myndar meirihluta með Sjálfstæðisflokknum, studdu hana ekki.

Í tillögunni var gert ráð fyrir húsum að tillögum FH og Hauka og markmiðið að bæta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar ungmenna í sveitarfélaginu í takti við ört vaxandi fjölgun iðkenda og heilsustenfu Hafnarfjarðarbæjar. Fulltrúar Bjartrar framtíðar lögðu fram bókun þar sem segir að tillöguna hafi skort nauðsynleg fylgigögn, til dæmis kostnaðarmat og greinargerð um afleiddan rekstrarkostnað af byggingunum.

Fjárhæðir krefjist nánari skoðunar

Í bókuninni kemur m.a. fram að ekki sé hægt að átta sig á hvort tilgreindar upphæðir næstu 4 ár muni duga til að fullgera verkið. Tölurnar séu ofáætlaðar og krefjist nánari skoðunar og undirbúnings. Þá gangi tillagan út á að binda stóran hluta framkvæmdafjár bæjarins til næstu fjögurra ára og hafa þurfi í huga að bærinn standi frammi fyrir gríðarlegri uppsafnaðri þörf á viðhaldsframkvæmdum á næstunni eftir langvarandi fjárhagsvandræði frá hruni. Tillagan gangi þvert gegn þeim vinnubrögðum sem lagt hafi verið upp með í endurskoðun á rekstri bæjarins sem hafi skilað stórbættri stöðu, sem og endurskoðun á samningum við íþróttafélögin í bænum.

Tillagan lögð fram aftur í haust

Í samtali við fréttastofu RÚV í kvöld sagði Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna, að tillagan verði lögð aftur fram í haust í breyttri mynd. Málið sé mikilvægt því að á annað þúsund krakkar æfi fótbolta í bænum og aðstaðan sé slök.

Mynd: Hafnarfjarðarbær.