Hjónin Einar Vídalín Guðnason og Halldóra María Gunnarsdóttir eru búsett hér í Hafnarfirði en Hallóra hefur búið hér í yfir hálfa öld á meðan Einar hefur verið búsettur í bænum í sextán ár. Árið 2006 eignuðst þau Einar og Halldóra húsbíl en áhuginn á slíkum ferðamáta kviknaði býsna óvænt.

„Við vorum stödd í sumarbústað þar sem var verið að ræða húsbíla. Tveimur dögum seinna vorum við komin á húsbíl,“ segir Einar. Algengt er að húsbílar beri hin ýmsu nöfn. Því er ekki úr vegi að spyrja þau Einar og Halldóru hvort þeirra húsbíll beri eitthvert nafn. „Já hann heitir heitir Vallarbúinn sem vísar í það að við búum á Völlunum í Hafnarfirði.“

Vel útbúinn bíll á góðum dekkjum

Allt frá því að Einar og Halldóra fengu húsbílinn hafa þau ferðast yfir vetrartímannallt árið og segir Einar að þau reyni  að fara í útilegu þegar vel viðrar. Þá segir hann að það sé vel hægt að ferðast á húsbíl allt árið um kring. „Allt sem þarf er að bíllinn sé vel út búinn og á góðum dekkjum. Ef þú ert með góða mistöð í bílnum þá er enginn hætta á því að þér verði kalt á nóttunni,“ segir Einar og brosir og bætir við að yfir vetrartímann séu færri tjaldsvæði sem eru opin. „Við förum eitthvað hérna í grennd við höfuðborgarsvæðið eins og á Selfoss og á Garðskagavita.“

Í tjaldi í janúar

Þau segja að yfir vetrartímann eru ekki margir sem leggist í ferðalög. „Það eru ekki margir íslendingar á ferðinni á þessum tíma. Við vitum ekki um marga sem leggjast út méð þessum hætti enda erum við oftast bara tvö,“ segir Einar. Í janúar 2017 fóru þau hjónin í sína fyrstu ferð þann veturinn. „Við vorum á Selfossi og það vakti undrun okkar að tveir útlendingar tjölduðu á svæðinu,“ segir Einar.

Ákváðu að fara heim

Á landi elds og ísa er hins vegar allra veðra von. „Í einni af ferðum okkar út á Garðskaga lögðum við af stað í ágætis veðri en um nóttina hvessti svo mikið að við héldum að bíllinn færi á hliðina. Því ákváðum við að fara heim um nóttina,“ segir Einar.

Á spjalli við ferðamenn

Að sögn Einars hafa þau Dóra ekki kynnst mörgum erlendum ferðamönnum á ferðalögum sínum yfir vetrartímann. Þó eyddu þau kvöldi með tveimur ferðamönnum, þýskum og frönskum, á Selfossi. „Þau voru hér á viku ferðalagi og stefndu á að fara hringinn. Við sýndum þeim áhugaverða staði á landakorti sem vert væri að skoða. En við bentum þeim jafnframt á veðrið gæti verið varasamt og við sýndum þeim vikuspána og gáfum þeim upp ýmsar slóðir á netinu,“ segir Einar að lokum.

Viðtal: Ágústa Arna Sigurdórsdóttir

Forsíðumynd: Olga Björt

Aðrar myndir í eigu hjónanna Einars og Dóru.