Swansea og Everton komust í gærkvöldi að samkomulagi um 45 milljón punda kaup Everton á Hafnfirðingnum Gylfa Sigurðssyni. FH mun að öllum líkindum fá 32 milljónir íslenskra króna í samstöðubætur fyrir þann tíma sem Gylfi spilaði með félaginu.

Gylfi gekkst undir læknisskoðun hjá Everton í dag og var í kjölfarið kynntur sem nýr leikmaður félagsins. RÚV hefur greint frá.
 
Áveðin hlutdeild og hlutfall af kaupverði
Eins og líklega allir Hafnfirðingar vita æfði Gylfi og spilaði lengi vel með FH. Fjarðarpósturinn hafði samband við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, sem hefur kynnt sér þessi mál sérstaklega og rætt þau, síðast í Morgunútvarpinu í morgun. Þórður Snær segir að félög sem Gylfi lék með frá 12-23 ára aldri fá ákveðna hlutdeild. „Þetta kallast samstöðubætur. Það eru greidd 0,25 prósent af kaupverði fyrir hvert ár þegar leikmaðurinn er 12-15 ára og 0,5 prósent fyrir hvert ár þegar leikmaðurinn er 16-23 ára. Samanlagt er þetta fimm prósent af kaupverði. Ef ég man þetta rétt þá fær Breiðablik því eitt prósent af kaupverðinu og FH 0,5 prósent. Miðað við að það sé 6,4 milljarðar króna þá fær FH 32 milljónir króna og Breiðablik 64 milljónir króna.“

Þórður Snær bendir jafnframt á að vert sé að hafa í huga að bæði FH og Breiðablik hafi áður fengið greiðslur vegna Gylfa. „Þegar hann var seldur frá Reading til Hoffenheim, frá Hoffenheim til Tottenham og frá Tottenham til Swansea. Þær voru auðvitað samt sem áður ekki svona háar, enda kaupverðið lægra.“

Mynd: The Sun.