Jón Rúnar Halldórsson. Mynd: FH.

Knattspyrnudeild FH samdi á dögunum við nýjan samstarfsaðila, NIKE, en búningar allra flokka innan deildarinnar höfðu verið merktir ADIDAS í 27 ár. Við spurðum formanninn Jón Rúnar Halldórsson, hverju sætti.

„Það er í raun ekki flókið, við fengum tilboð sem erfitt var að hafna og í raun ómögulegt. Það er okkur að sjálfsögðu mikið gleðiefni að finna fyrir því að fyrirtæki sækist eftir samstarfi við okkur, þ.e. Knattspyrnudeild FH og munum við gera okkar til þess að NIKE fái allt það sem þeir búast við og rúmlega það. Það er undir okkur komið að sjá um að svo verði,“ segir Jón Rúnar sem er sem fyrr bjartsýnn á framtíðina.

„Við horfum á nýtt upphaf í samstarfi við NIKE, við ætlum okkur að gera vel hvort heldur er í yngra starfinu hjá stelpum og strákum eða í meistaraflokkum félagsins. Við erum það félag hér í Hafnarfirði sem býr við mestan mannauð, það félag sem flestir vilja tengja sig við og sem stendur fyrir heilbrigðri uppbyggingu félagslega og aðstöðulega. Við byggjum á góðum grunni, grunni sem byggður var upp af fólki sem dró hvergi af sér við uppbygginu og vonandi stöndum við undir því að svo verði áfram. Ég efast reyndar ekki um að svo verði.“

Spurður um mögulegar breytingar sem þessi skipti munu helst hafa í för með sér segir Jón Rúnar slíkar ekki verða í daglegu starfi. „Við höldum áfram á þeirri braut sem við höfum verið á til langs tíma. Að sjálfsögðu er alltaf gaman að fá inn eitthvað nýtt og er ég viss um að flestum finnst þetta spennandi enda er NIKE eitt af toppmerkjum innan íþróttaheimsins, ekki síst innan fótboltans. Allt svona fær menn til þess að vilja gera betur og það er akkurat það sem við vöknum við alla morgna, að gera betur.“

Meðfylgjandi myndir tók Ólafur Már Svavarsson í hófinu þegar tilkynnt var um skipti á samstarfsaðila. Leikmenn og starfsfólk FH dældu pylsum í mannskapinn.