Hafnfirðingurinn Katrín Ósk Einarsdóttir býr ásamt unnusta sínum Kristjáni Erni Kristjánssyni og þremur börnum (Kristjáni Einari 7 ára, Ásdísi Kötlu 5 ára og Bryndísi Köru 2 ára) í tæplega 60 fermetra raðhúsi á Kagsåkollegi í Søborg sem er í úthverfi Kaupmannahafnar. Við báðum þau að lýsa aðeins fyrir okkur hvernig lífið gengur fyrir fjarri Fróni.

Fjölskyldumynd tekin í Hellisgerði í sumar.  

Katrín Ósk segir að það sem sé öðruvísi við að búa í Danmörku en á Íslandi sé að úti eru hlutirnir ódýrari en á móti komi að þótt matvara sé t.d. ódýrari þá sé vatn og rafmagn dýrara.  „En við höfum svo sem ekki lent í því að þurfa að hafa miklar áhyggjur af t.d. vatni því við búum á stað þar sem það er innifalið í leigu. Ef við værum á almennum leigumarkaði þyrftum við að spá mun meira í allt svoleiðis. Mér finnst merkilegt hvað maður sættir sig við hluti eins og t.d. það að búa með fimm manna fjölskyldu í 60 fermetrum. Ég hreinlega veit ekki hvort við myndum láta á það reyna á Íslandi, en hver veit! Ég er svo heppin að eiga handlaginn mann sem er búinn að smíða rúm handa krökkunum til að koma okkur sem best fyrir. Fyrst smíðaði hann rúm handa þeirri yngstu yfir okkar rúm og svo núna um daginn fóru þau öll í sama herbergið og þá bara henti hann fram úr erminni 3ja barna koju!“ segir Katrín stolt af sínum manni.

Eldri börnin sakna jólasnjós

Fjölskyldan flutti til Danmerkur til að fullorðna fólkið á heimilinu gætu menntað sig. „Kristján tók master í framleiðsluverkfræði og svo þegar hann var búinn fór ég í viðskipta- og tölvunarfræði og er u.þ.b. hálfnuð með það. Kristján er farinn að vinna við sitt fag og líkar vel,“ segir Katrín, en börnin þeirra eru í skóla og leikskóla og líkar mjög vel. „Þessi tvö eldri sakna þess svakalega að hafa ekki snjó og myndu helst vilja verja jólunum í snjó á Íslandi þrátt fyrir að við séum búin að segja þeim að það sé ekki alltaf snjór á Íslandi um jólin.“

Systkinin á sleðum á aðventunni. 

Stutt jólafrí vegna prófatíðar

Talandi um jólin á Íslandi þá segir Katrín Ósk að vegna þess hve „sniðugir“ Danir eru í prófamálum þá komist fjöslkyldan t.a.m. ekki til Íslands um jólin. „Ég á að skila verkefni í skólanum 4. janúar og svo eru prófin í þeim mánuði svo að maður fær lítið sem ekkert jólafrí. En þessi jólin ætlum við bara að vera við fimm heima í litla kotinu okkar og njóta þess að vera saman án ferðastress og veislustress. Við förum að vísu á jólaball og vonandi verður skötuhátíð hjá okkur eins og var í fyrra en það búa margir Íslendingar á sama ‘kollegi’. Við erum dugleg að hittast og gera eitthvað saman. Um daginn hittust t.d. foreldrar með börnum og skreyttu piparkökur. Við fáum líka stundum gesti frá Íslandi og það er alltaf jafn yndislegt, sama hve stutt fólk stoppar, erum bara glöð að hitta fólkið okkar,“ segir Katrín Ósk. 

Myndir: frá Katrínu Ósk.