Hafnfirðingurinn Óli Gunnar Gunnarsson leikur Finn, ungan þjálfara Fálkanna, í myndinni Víti í Vestmannaeyjum. Hann missti af frumsýningunni í síðustu viku vegna utanlandsferðar, en við bara urðum að ná í skottið á honum og spyrja hann nokkurra spurninga. Hlutverk Finns er stærsta kvikmyndahlutverk hins 18 Óla Gunnars, en eins og fjölmargir Hafnfirðingar vita á hann þegar heilmikinn leiklistarferil að baki og á ekki langt að sækja hæfileikana. Faðir hans, Gunnar Helgason, skrifaði sjálfa metsölubókina og móðir hans er Björk Jakobsdóttir leikkona og leikstjóri.  

„Sko þetta er fyrsta „alvöru“ hlutverkið mitt í bíó. Fram að þessu hef ég af og til verið fyrir framan myndavél en það var aldrei neitt meira en bara strákur númer 2 eða unglingur númer 4 eða eitthvað þannig. Mér finnst eins og þetta sé svona fyrsta hlutverkið mitt þar sem ég get sýnt hvað ég get gert sem leikari og gaf þess vegna allt mitt í þetta,“ segir Óli Gunnar og bætir við að karakterinn Finnur sé eiginlega bara að mestu leyti byggður á honum sjálfum. „Hann er ungur fótboltagæi sem er að þjálfa í fyrsta sinn. Ég setti mig bara í þær aðstæður, sem var ekki erfitt þar sem ég elska fótbolta. Ég byrjaði alltaf að hugsa hvað myndi ég gera og svo hvað myndi Finnur gera. Þannig byggðist pínu persóna yfir minn raunverulega persónuleika.“

 

Yndislegir krakkar

Spurður um ferlið við gerð myndarinnar segir Óli Gunnar að það hafi verið bara sturlun. „Vakna snemma, leika og fara í fótbolta. Nefndu betri vinnu en það! Það sem þó situr líklegast mest eftir er samband mitt við þessa krakka sem, svo við höfum það alveg á hreinu, verða allir eitthvað stórt í framtíðinni! Þeir voru allir yndislegir og þá sérstaklega liðið mitt.“

Langaði fyrst að leika Jón

Óli Gunnar segir að þeir tökudagar sem standi út úr fyrir honum séu hellasenan og svo heima hjá Ívari. „Ef þið vitið ekki hvað ég er að tala um þá verðið þið bara að sjá myndina. Eins og kannski sumir vita þá skrifaði pabbi minn bókina. Þegar okkur feðgana dreymdi saman um að hún yrði einhvern tímann að bíómynd þá var draumahlutverkið mitt Jón, aðalkarakterinn. Þá var ég 10 ára. Nú þegar ég er orðinn eldri og draumur orðinn að veruleika get ég ekki hugsað mér neitt betra en að fá að taka þátt í þessu meistaraverki. Þannig Finnur er draumahlutverkið mitt,“ segir Óli Gunnar stoltur að lokum og hvetur alla til að drífa sig í bíó og sjá myndina.

 

 

Myndir úr tökum.