Úthlutun lóða undir sérbýli í öðrum áfanga Skarðshlíðar stendur nú sem hæst og hefur áhugi fólks á að byggja sér heimili á þessu fallega svæði verið mjög mikill. Lóðir fyrir um 170 íbúðir í sérbýli eru þar til úthlutunar, og hafa þegar a.m.k. 90 þeirra verið úthlutað. Framkvæmdir í fyrsta áfanga Skarðshlíðar eru farnar af stað þar sem fyrir rúmu ári var úthlutað lóðum undir alls um 230 íbúðir í fjölbýli. Þær íbúðir ættu að verða tilbúnar og komnar í sölu á næsta ári. Úthlutun á lóðum í þriðja áfanga Skarðshlíðar er svo næst á dagskrá, en þar er gert ráð fyrir blandaðri íbúðabyggð, um 120 íbúðum og má gera ráð fyrir að lóðir þar verði auglýstar til úthlutunar í vor. Enn standa yfir framkvæmdir við fjölbýlishús á Völlunum, á lóðum sem úthlutað var fyrir um tíu árum, og  sér brátt fyrir endann á. Í fyrra lauk framkvæmdum á síðustu fjölbýlishúsunum á Norðurbakkanum á lóðum sem einnig var úthlutað fyrir um áratug sem og við Skipalón og Herjólfsgötu. Framkvæmdir byggingaraðila og lóðarhafa í Hafnarfirði hafa því síðastliðin ár tekið mið af eftirspurn og þörf á markaði á þessum tíma.

Spennandi framtíðaráform

Skipulagsvinna við næsta íbúðahverfi bæjarins, Hamranesið, stendur nú yfir en þar er gert ráð fyrir að 800 -1000 íbúðir rísi. Mikilvægt er að staðið verði við niðurrif á rafmagnslínum sem liggja yfir svæðinu en áform bæjarins gera ráð fyrir að svo verði.

Í stóru og öflugu bæjarfélagi eins og Hafnarfirði er mikilvægt að bjóða upp á fjölbreytta möguleika fyrir uppbyggingu íbúðahúsnæðis. Það er gert nú með því að hafa á boðstólum lóðir í útjaðri bæjarins í grennd við ósnortna náttúruna og í eldri hverfum þar sem unnið er að þéttingu byggðar. Nýlega voru kynntar hugmyndir um miklar breytingar á iðnaðar- og þjónustusvæðinu á Hraunum-Vestur þar sem ráðgert er að á næstu árum geti orðið til svokallað ,,5-mínútna hverfi“; hverfi blandað um 2.300 íbúðum, verslun og þjónustu af ýmsu tagi. Fyrsti áfangi í uppbyggingu þess gæti hafist á næsta ári þegar allri undirbúningsvinnu og skipulagsferli er lokið. Þar er gert ráð fyrir íbúðahúsum af fjölbreyttri gerð sem henta þörfum ólíkra hópa. Uppbygging íbúðahúsnæðis á lóðum í eldri hverfum bæjarins er að hefjast sbr. á Dvergsreitnum, við Hrauntungu og Suðurgötu þar sem möguleikar til að byggja sér þak yfir höfuðið í grónu hverfi verða fyrir hendi. Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafa lagt áherslu á fjölbreytta möguleika til uppbyggingar íbúðahúsnæðis í bænum til að áhugasamir hafi val um staðsetningu, byggingargerð og ólíkan lífsstíl og að íbúðauppbyggingin uppfylli þarfir sem flestra og taki tillit til aðstæðna á húsnæðismarkaði hverju sinni.