Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að bæta þjónustu fyrir barnafjölskyldur í Hafnarfirði og er það í stefnu núverandi meirihluta. Á næsta ári verður opnaður 4 deilda leikskóli við Skarðshíðarskóla sem tekur um 90 börn.  Leikskólinn er mikil og góð viðbót við þá góðu leikskóla sem við höfum nú þegar í bæjarfélaginu. Einnig verður hafist handa við undirbúning og hönnun að viðbyggingu við leikskólann Smáralund sem staðsettur er í  Suðurbæ og vonir standa til að geti opnað árið 2020.

Í ljósi íbúaþróunar á komandi árum liggur fyrir að fjöldi ungra barna fer fjölgandi í ákveðnum hverfum og er þá helst að nefna Vallarhverfi og Skarðshlíð.  Hafa ber í huga að hverfin eldast og ungum börnum fækkar. Mikilvægt er því að skoða og taka mið af heildarmyndinni áður en farið er í kostnaðarsama fjárfestingu eins og leikskóla.

“Kató“ í nýrri mynd

Þegar farið er af stað í miklar fjárfestingar í einu hverfi þarf að svara því hvað skuli gera við viðbótarpláss í öðrum hverfum. Mikilvægt er að finna leiðir til þess að nýta þá innviði sem eru til staðar í Hafnarfirði svo fjármunum sveitafélagsins sé varið á skynsaman hátt að ógleymdri þeirri menningu, hefðum  og þekkingu sem til staðar er í leikskólum bæjarins. Viðbygging við Smáralund má því teljast afar hagkvæm framkvæmd þar sem innviðir og mannauður  munu  nýtast vel og þjónusta það svæði sem Kató sinnti áður sem við mörg munum svo vel eftir.

Leikskólamál skipta okkur öll máli og það skiptir máli að þau séu í góðum höndum þar sem stöðugar umbætur og mat á þjónustu við ungar barnafjölskyldur eru forgangsmál.

Kristín Thoroddsen, formaður fræðsluráðs

Margrét Vala Marteinsdóttir, varaformaður fræðsluráðs