Leiðir meðlima hafnfirsku hrynsveitarinnar Ugglu lágu fyrst saman vorið 2013 og ýmislegt hefur gerst á fjórum árum. Hana skipa, að eigin sögn, fjórar miðaldra karl-Ugglur sem eiga það m.a. sameiginlegt að halda með FH og þrír þeirra eiga Tónlistarskóla Hafnarfjarðar ýmislegt að þakka. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu, Straumur, í júlí sl. og verður blásið til útgáfutónleika 14. október.

Sagan byrjaði þegar Viðar Hrafn Steingrímsson var að undirbúa sameiginlegt afmæli sitt og konunnar sinnar fyrir fjórum árum og Kjartan Þórisson stökk inn sem trommari hljómsveitar í stað annars sem átti ekki heimangengt. Þegar þeir Viðar og Kjartan hittust næst ræddu þeir að gera eitthvað meira. Kjartan lærði á trommur í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og lék lengi í Lúðrasveit Tónlistarskólans, en það vita það kannski ekki margir en Kjartan leikur öfugt á trommusettið þótt rétthentur sé. Viðar Hrafn hóf sinn tónlistarmannsferil 17 ára þegar hann vann bassa í veðmáli. Leiðin lá í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar þar sem hann lærði á rafbassa og kontrabassa.

Gítarleikarar og söngvarar koma í hópinn

Haustið 2013 hófst leit að söngvara og gítarleikara, gjarnan í einum og sama manninum. Lykilatriði var að hann héldi með FH eins og aðrir meðlimir. Valdimar Þór Valdimarsson handverksbakari var valinn, en hann tók m.a. virkan þátt í Leikfélagi Hafnarfjarðar og lék meðal annars í vinsælli sýningu á Bugsy Malone. Valdimar er bæði söngvari og gítarleikari Ugglu. Eftir næstu áramót var trúbadorinn, gítarleikarinn, munnhörpuleikarinn og söngvarinn Kjartan Orri Ingvason (Koi) umsvifalaust munstraður í hópinn. Kjartan Orri lærði fyrst vinnukonugripin á gítar í námsflokkum Hafnarfjarðar við 14 ára aldur, svo seinna meir stoppaði hann stutt við í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar þar sem hann lærði á rafgítar. Kjartan gaf út plötuna Sum of all things á vormánuðum 2014 voru 5 lög tilbúin, en tvö þeirra eru á plötunni Straumur.

Nafn á hljómsveitina valið

Um sumarið 2014 hélt Rás 2 Neil Young ábreiðukeppni og tók bandið þátt með lagið Give me strength, en lagið er aðeins að finna á bootleg upptöku. Þá varð að finna nafn á hljómsveitina og, eins og flestir vita, er álíka erfitt að finna nafn á hljómsveit og að semja um frið í Mið-Austurlöndum. En að lokum datt nafnið Uggla inn sem allir gátu fellt sig við. Rithátturinn er ekki hefðbundinn en er þó til í gömlum orðabókum og meðlimum þótti það skapa skemmtilega sérstöðu.

Söfnun, útgáfa og tónleikar

Veturinn 2014-15 var æft stíft, nýtt efni samið og fyrstu tónleikar hljómsveitarinnar voru 14. mars. Í apríl tróð sveitin upp á A.Hansen Bar sem hluti af HEIMA tónlistarhátíðinni. Sama haust fór Uggla loksins að taka upp í hljóðverinu og varð Aldingarðurinn fyrir valinu. Fyrsta lagið kom út í mars 2016, Sit í svörtu húmi. Sama vor var blásið til tónleika á Kex Hostel ásamt fleirum, þar sem Uggla lék 10 lög. 20. janúar í ár kom svo lagið Hillerød út og fékk fljótt ágætis spilun á Rás 2 og náði inn á topp 10 á vinsældalistanum. Þá var blásið til söfnunar á Karolina Fund sem hefur gengið vonum framar og er komin yfir 100% markmið, en að sögn meðlima má enn styrkja. 12. júlí kom frumraun Ugglu út, platan Straumur og útgáfutónleikar verða 14. október í Borgarleikhúsinu. Ýmsir hafnfirskir listamenn hafa komið við sögu Ugglu og lagt þeim lið við upptökur og þeir eru þeim afar þakklátir.

Meðlimir Ugglu frá vinstri: Valdimar Þór, Viðar Hrafn Steingrímsson, Kjartan Orri Ingvason og Kjartan Þórisson. 

Forsíðumynd: Olga Björt. Lengst til hægri er sonur Kjartans Orra, Finnbogi, en hann er „framkvæmdastjóri“ hljómsveitarinnar.

Aðrar myndir eru í eigum Ugglu.