Næstkomandi sunnudagskvöld gefst Hafnfirðingum og nærsveitungum tækifæri til að upplifa einstaka tónleika í Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Á tónleikunum munu Inga Björk Ingadóttir og John Billing flytja eigin tónlist fyrir lýrur og söng. 

Inga Björk segir ánægjuefni að fá John til landsins, en hann hefur samið mikið af tónlist fyrir lýru og ferðast um allan heim í áraraðir til kennslu og tónleikahalds. „Lýran er einstakt hljóðfæri og hefur sérstöðu í íslenskri tónlistarflóru. Sérstæður hljómur lýrunnar leiðir sköpunarferlið við gerð laga og texta. Lýran á rætur að rekja til elstu þekktu strengjahljóðfæra og er hún notuð til tónlistarsköpunar, meðferðar og kennslu um allan heim.“


Inga Björk hefur komið víða við á tónlistarferli sínum. Hún lauk burtfararprófi í píanóleik, lærði tónsmíðar og tölvutónlist. Hún nam músíkmeðferð í Berlín til ársins 2016. Frá þeim tíma hefur hún sótt fjölda námskeiða og starfað að músíkmeðferð hér heima og erlendis. Hún kemur reglulega fram með tónlist sína hérlendis og erlendis og hefur einnig samið tónlist fyrir leikverk, dansverk og brúðuleikhús í Þýskalandi. Aðgangseyrir er 1500 kr. Tónleikarnir eru styrktir af Hafnarfjarðarbæ og hefjast kl. 20.

 

Myndir aðsendar.