Það var fjandi gaman að vera barn á níunda áratuginum. Það er oft talað um að heimurinn sé alltaf að minnka. Það er bara þvæla, hann er alltaf að stækka. Barnabókin „Helgi skoðar heiminn“ kristallíserar þetta mjög greinilega. Heimur Helga rétt náði að teygja sig út fyrir túnfótinn. Þegar ég var pjakkur var vídeóspólan að ryðja sér til rúms, þar áður hafði sá heimur takmarkast af því hvaða kábbojmynd var verið að sýna í Bæjarbíó. Ég eignaðist ungur Zinclair Spectrum leikjatölvu sem leysti af hólmi Donkey Kong tölvuspilin sem hvort eð er voru alltaf batteríslaus þegar á reyndi.

Í denn voru bara tvær hljómsveitir til í heiminum, Wham og Duran Duran, og það mátti ekki einu sinni halda upp á þær báðar, það varð að velja aðra hvora. Afþreyingarnar voru nægilega fábreyttar til að knýja okkur til að lesa bækur svo við dræpumst ekki úr leiðindum, en þeim fjölgaði ár frá ári.

BMX hjólinn stækkuðu heiminn talsvert, þokunni létti af Álftanesinu og niður í miðbæ. Þau voru líka endalaus uppspretta glæfraatriða sem við vorum mjög duglegir við að reyna að fullkomna. Besti stökkpallurinn var á bak við Engidalsskóla. Þá hjóluðum við niður brekkuna framhjá saumastofunni og náðum helvíti góðri siglingu þegar við tók nánast lóðrétt moldarbrekka. Í minningunni var neðsti punktur hjóls oft kominn í vel rúma mannshæð þegar þyngdarlögmálið knúði okkur til að lækka flugið.

Þegar svo einhverjir leiðindakallar frá bænum hófust handa við að smíða grindverk til að forða okkur frá örkumlun var okkur nóg boðið. Við negldum saman kröfuspjöld og örkuðum saman í einni hersingu á fund bæjarstjóra sem var mjög skemmt og lofaði úrbótum. Við það var staðið og við fengum hættulausa hjólabraut í hrauninu.
Ekki dugði að lífshættunni lyki þótt á okkur snjóaði og því safnaðist ægilegur hýenuher saman við mynni blokkarhringsins á vetrum og þar köstuðum við okkur á bráðina hverja á fætur annari, við sumsagt röðuðum okkur á afturstuðara og afturbretti bílanna sem hjá runnu og „teikuðum“ þá eins langt og við þorðum.
Good times