Foreldrar barna og unglinga sem æfa knattspyrnu hjá FH komu saman á fundi í Kaplakrika á mánudag og ræddu aðstöðuleysi yngri flokka hjá félaginu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá FH. Húsfyllir var á fundinum og góð samstaða um þá kröfu að iðkendur fái svör frá bæjaryfirvöldum hið fyrsta. Fundurinn samþykkti ályktun þar sem bæjaryfirvöld eru hvött til að gefa svör fyrir 15. september næstkomandi um hver verði aðkoma bæjarins að fyrirhugaðri uppbyggingu á Kaplakrika-svæðinu. Mörg hundruð börn og ungmenni verða í vanda vegna skorts á æfingartímum hjá FH í vetur en velgengni félagsins og öflugt yngri flokka starf hefur aukið mjög aðsóknina í að æfa hjá því.