Foreldraráð Hafnarfjarðar tekur undir álit umboðsmanns barna um aðstöðumun barna sem ekki eru í mataráskrift í Áslandsskóla og telur brýnt að brugðist verði við þeim ábendingum hið fyrsta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Foreldraráði Hafnarfjarðar sem barst Fjarðarpóstinum.

Eins og fram hefur komið hafa nemendur í Áslandsskóla, sem ekki eru í mataráskrift, ekki fengið að sitja við hlið samnemenda sinna sem eru í mataráskrift í matsal skólans. Kvörtun þess efnis barst Umboðsmanni barna í mars síðastliðnum og var erindi sent á bæjarstjórn Hafnarfjarðar, skóla og frístundasvið bæjarins auk skólastjórnenda í júní sem var ítrekað í ágúst. Umboðsmaður barna skoraði í framhaldinu á Áslandsskóla og Hafnarfjarðarbæ að bæta úr aðstöðunni sem allra fyrsta því matarhlé væru nauðsynleg nemendum til félagslegra samskipta og tengslamyndunar.

Í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að á fyrsta fundi nýs fræðsluráðs, þann 26. júní 2018, hafi verið tekið fyrir bréf frá umboðsmanni barna varðandi mötuneyti Áslandsskóla og það fyrirkomulag að nemendur í mataráskrift matist í öðru rými en nemendur sem koma með nesti að heiman. Fræðslustjóra Hafnarfjarðarbæjar hafi á fundinum verið falið að fylgja bréfinu eftir sbr. bókun. Afrit af bréfi var birt með bókun fundar.

  1. 1806177 – Umboðsmaður barna, erindi

Erindi umboðsmanns barna um aðstöðu nemenda Áslandsskóla í matsal grunnskólans.

Fræðslustjóra falið að fylgja erindi umboðsmanns barna eftir. Fræðsluráð leggur áherslu á og að stjórnendur Áslandsskóla taki til endurskoðunar aðstöðu nemenda í matarhléum frá og með nýju skólaári með það fyrir augum að tryggja öryggi, svigrúm til samveru og tækifæri til félagslegar samskipta og tengslamyndunar í matarhléum sem og öðrum stundum innan skóladagsins.

Í sömu tikynningu er jafnfram tekið fram að Umboðsmaður barna hafi í júní ekki óskað eftir formlegu svari við erindinu og erindið því farið, líkt og önnur erindi, í eðlilegan farveg innanhúss. „Bréfið var tekið fyrir á fyrsta fundi nýs fræðsluráðs í lok júní og því fylgt eftir af fræðslustjóra í ágúst að afloknu sumarfríi. Umboðsmaður barna og fræðslustjóri hafa á tímabilinu hist á fundi og átt símtöl þar sem málið var m.a. rætt og skilningurinn sá að allir hlutaðeigandi væri meðvitaðir um stöðu mála. Þróunarfulltrúi grunnskóla hefur einnig átt í samskiptum við Umboðsmann barna og fleiri starfsmenn embættisins vegna málsins. Á næstu dögum mun nýtt skólaráð fyrir Áslandsskóla vera skipað en skipað er í skólaráð í upphafi hvers skólaárs. Skipun hefur dregist þetta árið vegna ytri úttektar á starfsemi skólans. Skólastjóri Áslandsskóla vinnur að því í samráði við skólaráð skólans, sem skipað er nemendum, foreldrum og starfsmönnum, að endurmeta núverandi fyrirkomulag í mötuneyti nemenda og koma með tillögur að breytingum. Um leið og ákvörðun skólaráðs liggur fyrir verður erindi Umboðsmanns barna formlega afgreitt í fræðsluráði.“

Ekki náðist í Leif Garðarsson, skólastjóra Áslandsskóla, við vinnslu fréttarinnar.

Mynd: Skjáskot úr 35 ára afmælismyndbandi Fjarðarpóstsins.