Hin árlega ráðstefna Hjólum til framtíðar fór fram í Bæjarbíó í liðinni viku og þar afhenti forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson Hjólaskálina. Hann kom að sjálfsögðu hjólandi frá Bessastöðum og tók ferðalagið 25 mínútur. Það var fyrirtækið Isavia sem tók við viðurkenningunni þetta árið fyrir einstaklega góða aðstöðu fyrir hjólreiðafólk í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Guðni Th. Jóhannesson, Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Isavia og Sesselja Traustadóttir. Mynd: Hafnarfjarðarbær. 

Ráðstefnan var á vegum Hjólafærni og Landsamtaka hjólreiðamanna og var meginþema ráðstefnunnar ánægja og öryggi hjólandi vegfarenda með lausnamiðuðu ívafi fyrir léttflutninga í þéttbýli. Þegar Guðni Th. Jóhannesson afhenti viðurkenninguna til Isavia sagði hann að honum fyndist nafnið „biiiiikeee piit“ (borið fram á íslensku) einkennilegt nafn. Hann var umsvifalaust leiðréttur af fólki í salnum sem kallaði: „Það er bæk pitt!“ Þá áttuðu viðstaddir sig á kaldhæðninni í forsetanum sem sagði að það hlyti að vera hægt að bæta við íslensku heiti og lagði til heitið Hjólaskálinn, sem einmitt hljómar eins og Hljólaskálin. Hlaut hann hlátur, lof og klapp fyrir það. Í lokin afhenti Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar, gjörðina til bæjarstjóra Seltjarnarness, Ásgerðar Halldórsdóttur. Ráðstefnan verður haldin þar að ári.

Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, afendir Ásgerði Halldórsdóttur, bæjarstjóra Seltjarnarness, gjörðina góðu. 

Forsetinn kveður og hjólar áleiðis heim.