Emil Hallfreðsson er knattspyrnuáhugamönnum flestum vel kunnur enda hefur hann átt farsælan feril með íslenska landsliðinu og FH og dvalið stærstan hluta atvinnumannaferils síns á Ítalíu. Hann skipti nýverið um félag, fór til Udinese í ítölsku Seríu A-deildinni eftir að hafa farið með sínum fyrri félögum í Hellas Verona upp um tvær deildir frá því að hann kom þangað.

img_2887

Emil staddur á Hotel Nordica Hilton, fyrir leikinn gegn Tyrkjum

Emil er alinn upp á Holtinu í hópi fjögurra systkina. Hann á eldri systur, Fríðu Hrönn, og svo tvíburasystkin, Hákon og Helenu Hallfreðsbörn. Honum leið mjög vel á Holtinu og er mjög ánægður með að hafa alist þar upp. „Ég byrjaði í fótbolta í Haukum sex ára gamall því að Hilmar Hákonarson, bróðir mömmu minnar, var að þjálfa. Ég var með svo lítið hjarta að ég þorði ekki á æfingar fyrr en hann fór að þjálfa,“ segir Emil. Hann fór svo yfir í FH í fimmta flokki þegar hann kom heim frá Bandaríkjunum þar sem hann bjó í eitt ár ásamt fjölskyldunni.

„Á þessum tíma var FH með langbesta liðið í þessum aldursflokki, þessum svokallaða 84 árgangi. Við vorum mjög sigursæll árgangur.“
Í þessum hópi voru ýmsar kempur og þar má nefna Davíð Viðarsson sem er fyrirliði FH í dag, Sverrir Garðarsson, Atli Guðnason, Jón Ragnar Jónsson og fleiri. Margir héldu svo áfram og spiluðu í meistaraflokki. „Ótrúlega margir urðu leikmenn og jafnvel atvinnumenn. Ég, Hannes Þ. Sigurðsson, Sverrir Garðarsson sem ég vil meina að væri í landsliðinu í dag hefði hann ekki meiðst. Hann var hrikalega góður. Ég þakka þessari samkeppni sem maður fékk þá því að ég varð alvöruleikmaður. Þetta var grúppan sem maður ólst upp með. Við höfum haldið sambandi og þetta er bara vinahópurinn í dag.“

Var engin stjarna

Emil segist alls ekki hafa verið bestur í þessum árgangi. „Ég var engin stjarna. Á yngra ári í þriðja flokki var ég t.d. ekki alltaf í liðinu. En ég var mjög efnilegur. Það gekk mjög vel í öðrum flokki og við unnum alla. Eftir það var Sverrir þegar byrjaður að spila reglulega með meistaraflokki og Davíð Þór kominn í atvinnumennsku og mér fannst ég þurfa að gera eitthvað í mínum málum ef ég ætlaði að komast lengra. Ég komst aðeins í hópinn í meistaraflokki en fékk fá tækifæri. Ég ákvað því að gefa allt í þetta. Ég tók allt undirbúningstímabilið í frjálsum íþróttum og var að vinna í mínum leik. Það gerði mér ótrúlega gott og sumarið eftir var ég búinn að bæta styrk og hraða og ég eiginlega sló í gegn það sumarið.“ Það var árið 2004 þegar FH vann Íslandsmeistaratitillin í fyrsta sinn. Það sumar var Emil einmitt valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar.

Hjólin byrja að snúast

Á þessum tíma var ég í 21 árs landsliðinu og við spiluðum vel. Svo var FH í Evrópukeppninni og útsendarar höfðu verið að fylgjast með. Tottenham, Everton og Feyenoord sýndu mér áhuga. Ég ætlaði alltaf að semja við Everton en það klikkaði á endanum af einhverjum ástæðum. Ég fór svo og skoðaði aðstæður hjá Tottenham og Feyenoord og á endanum valdi ég Tottenham.“

Emil segir að eftir á að hyggja hafi verið of stórt skref að fara frá íslensku félagsliði yfir í Tottenham. Emil segir jafnframt að ef hann ætti að ráðleggja einhverjum sem stæði í þessum sömu sporum og þyrfti að velja á milli þessara tveggja liða í dag þá myndi hann mæla með því að sá hinn sami færi í Feyenoord. Holland hafi gefið fleiri ungum leikmönnum tækifæri og vænlegra sé að taka þetta í smærri skrefum og trappa sig upp.

Stigsmunurinn kom fljótt í ljós og fékk Emil ekki mörg tækifæri hjá Tottenham. Eftir rúmlega ár fór hann á lánssamning hjá Malmö í Svíþjóð eitt tímabil þar sem honum gekk mjög vel. Þá var hann seldur til Lyn í Noregi og til marks um það hversu hlutirnir gerast fljótt í fótboltanum fékk hann tilboð og var seldur til Reggina á Ítalíu eftir aðeins þrjár vikur í herbúðum Lyn, þá 23 ára gamall.

„Tíminn hjá Reggina var skemmtilegur og lærdómsríkur en líka mjög sérstakur. Forsetinn þar var ótrúlegur og alls konar rugl í gangi,“ segir Emil án þess þó að vilja fara út í það nánar. „Ég spilaði t.d. 28 leiki fyrsta tímabilið og svo örfáa það næsta og engin ástæða gefin af hverju. Þetta var þó stórt gæfuspor fyrir mig þar sem Ítalía er stór gluggi fyrir knattspyrnumenn.“

Eftir þessa tveggja ára dvöl hjá Reggina var Emil fenginn að láni til Barnsley á Englandi sem var þá í ensku B-deildinni. Svo gerist það að ég ristarbrotna í byrjun apríl og er frá eftir það. Þar sem ég var að láni fór ég aftur til Reggina eftir tímabilið. Reggina féll um deild það árið og ég vildi helst komast eitthvað annað þar sem ýmislegt var í gangi í klúbbnum sem ég fílaði ekki. Það kom til greina að fara annaðhvort til Cesena sem var í Seríu A eða til Hellas Verona í Seríu C. Þetta voru einu tveir valkostirnir í stöðunni þá.“

Þegar Cesena gat ekki gefið afgerandi svar af eða á, ákvað Emil á síðasta degi félagsskiptagluggans að fara til Hellas Verona og taka slaginn þar. Þeir voru með háleitar hugmyndir um að koma sér upp um deild.

Gæfuspor

„Þetta varð líklega mitt mesta gæfuspor á ferlinum. Ég fór þangað grenjandi því ég trúði því ekki að ég væri orðinn Seríu C-leikmaður á Ítalíu. Mér fannst ég allt of góður til þess sem ég og var. En eftir á að hyggja var það líklega guðs vilji að ég færi þangað. Því við unnum svo deildina, fórum strax upp í Seríu B. Ég kynntist þarna þjálfara sem hefur gefið mér hvað mest á ferlinum. Á öðru ári fórum við svo beint í umspil um að komast í A-deildina en töpuðum reyndar. En næsta ár þar á eftir unnum við B-deildina og fórum upp. Nú er ég að spila sjötta árið mitt í Seríu A.“

Emil segir Hellas Verona flottan klúbb með góða stuðningsmenn og það hafi verið mikið ævintýri að fá að taka þátt í þessu. Klúbburinn eigi stóran sess í hjarta hans. „Klúbburinn hefur flotta stuðningsmenn og Verona er náttúrulega ein fallegasta borg á Ítalíu.“

Udinese

emil-spilar

Emil í leik með Udinese

Í fyrra kom tilboð í Emil frá stórliðinu Udinese. „Verona var tilbúið að selja mig og fyrst svo var og vegna þess að þjálfarinn, sem hafði gefið mér svo mikið, hafði verið rekinn hugsaði ég að það væri kominn tími til að breyta til. 31 árs á þeim tíma og enn þá að toppa mig og þess vegna fannst mér gaman og mikill heiður að fá að taka skref upp á við á þessum aldri í boltanum. Udinese er mun stærri klúbbur með meiri sögu og er mun hærra skrifaður knattspyrnulega séð en Hellas Verona. Þetta lið er í toppklassa.“
Emil segir allar aðstæður til fyrirmyndar hjá Udinese, þær séu með því betra sem gerist á Ítalíu. „Við höfum 12 sjúkraþjálfara. Þar er veitingastaður þar sem við borðum hádegismat saman með fjölskyldunum okkar þannig að fjölskyldurnar okkar hafi tækifæri til að kynnast. Mjög skemmtileg stemmning í gangi þar. Þeir hugsa mjög vel um mann. Ég er því mjög þakklátur að hafa fengið að fara þangað.“

Emil segist hafa náð að sanna sig fyrir þjálfaranum og stuðningsmönnunum á þessu tímabili. Það hefur gengið vel. Til marks um það var hann valinn einn af tíu bestu leikmönnum vikunnar í deildinni af stórri knattspyrnuvefsíðu á Ítalíu í september. En þá vikuna hafði Udinese unnið 0-1 útisigur á AC Milan og í umsögn var talað um að Emil hafi verið maðurinn á bak við allar aðgerðir Udinese í leiknum.

Í topp formi

„Ég hef aldrei verið eins mótíveraður og ég er núna, ég vil spila eins lengi og ég get á „top level“. 32 ára er enginn aldur í dag. Ég hef aldrei verið í betra standi,“ segir hann og bætir við að í dag sé miklu betri þjálfun, hugsað meira um mataræði og æfingar og því geti menn spilað lengur en áður fyrr. Udinese ætlar sér stóra hluti á þessu ári og Emil líka sem ætlar að toppa sig enn eina ferðina og gefa sig allan í þetta. „Gefðu allt sem þú átt, eins og hann Jón Jónsson vinur minn segir,“ syngur Emil hástöfum.

Fjölskyldan

Emil hefur verið giftur Ásu Maríu Reginsdóttur síðan 2012 og þau eiga saman tvö börn, Emanuel og Andreu Alexu. Emil segir algjör forréttindi að hafa fengið að búa þarna og ala upp börn en bæði börn Emils eru fædd í Verona. Þau hjónin hugsi þó oft heim vegna frelsisins á Íslandi og ýmislegs í sambandi við tómstundastarf barnanna. „Strákurinn okkar byrjaði að æfa fótbolta 4 ára á Íslandi en það er ekkert slíkt í boði í Ítalíu. Það er miklu meira í gangi á Íslandi. Hugsunarhátturinn er öðruvísi á Ítalíu, börnin eiga að hvíla sig meira. Við erum þó mjög ánægð hérna og strákurinn okkar er orðinn mikilli Ítali. Talar líklega betri ítölsku en íslensku. Hann er reyndar búinn að vera í mánuð á Íslandi núna og fékk inni á leikskóla. Það er ótrúlegt hvað þessir krakkar eru fljótir að skipta yfir á annað tungumál.“

Syngur og spilar

Þegar Emil á lausa stund finnst honum gaman að grípa í gítarinn og syngja. „Mætti gera meira að því. Ég tók dúett með Páli Óskari í brúðkaupinu mínu meira að segja. Mjög stoltur af því, það var mikið afrek og ótrúlega gaman. Ég spilaði meira að segja undir á gítar. Einn af hápunktunum á mínum tónlistarferli. Við tókum svona Damien Rice-útgáfu af To love somebody.“

Ítalska vínið

Hjónakornin Emil og Ása María eru nýlega byrjuð á því að flytja inn rauðvín og hvítvín frá Ítalíu ásamt Ágústi Reynissyni og Hrefnu Sætran, eigendum Grillmarkaðarins. Ágúst er giftur frænku Emils og þeir þekkjast því vel. Þeir Emil og Ágúst höfðu í sitthvoru lagi hugsað um slíkan innflutning í nokkurn tíma.

„Við byrjuðum með eina tegund „Allegrini“ sem er þegar komin í ríkið og á veitingastaði. Þetta er þvílíkt gott vín úr Valpolicella-dalnum sem Verona er í. Þannig var að ég kynntist Allegrini-fjölskyldunni og er orðinn mjög góður vinur sonar eigandans. Ég hafði farið í margar vínsmakkanir með fólk þangað og þau tóku alltaf svo vel á móti okkur. Ég viðraði þessa hugmynd við þau og þau tóku vel í þetta,“ segir Emil og bætir við að Ágúst hafi svo haft samband við sig upp úr þurru og ákváðu þeir að gera þetta saman.

Aðspurður hvort þarna sé hann búinn að leggja drög að framtíðarstarfinu eftir atvinnumennskuna segir hann: „Okkur langar allavega í framtíðinni að bæta við fleiri tegundum frá Ítalíu. Þetta er skemmtilegur bransi og stór. Bara hér í Valpolicella dalnum eru um 200 vínframleiðendur. Svo eru allir hinir. En okkur langar bara að flytja inn gott vín, quality-vín.
Emil segist ekki hafa bragðað áfengi áður en hann flutti til Ítalíu, var algjör bindindismaður og hafði ekki einu sinni drukkið kaffi. „Hér er þetta samofið menningunni. Liðið okkar fer t.d. á hótel daginn fyrir leik og okkur er boðið rauðvínsglas ef við viljum. Eitt glas er allra meina bót, segja þeir. Maður fer niður í miðborg Verona að kvöldi og þar sér maður hvern einasta mann með vínglas en enginn er drukkinn, fólk kann að fara með vín hérna.“

Heimþrá?

Emil ásamt pabba sínum Hallfreði, rétt fyrir andlát hans.

Emil ásamt pabba sínum Hallfreði, rétt fyrir andlát hans.

„Þessi stuðningur, sem fjölskyldan er, er kannski mesti söknuðurinn við Ísland. Ekki er það rokið og rigningin. Það er yndislegt að búa á Ítalíu og ég er ótrúlega þakklátur fyrir það en maður saknar fjölskyldu og vina. Það er kannski sérstaklega fyrir Ásu, hún er ein með börnin þegar ég fer í keppnisferðir og slíkt. Þó við höfum alls ekki heimþrá þá saknar maður þess stundum að geta ekki kíkt til ömmu og hitt systkini sín og slíkt. Mömmur okkar og systkin koma svo alltaf af og til enda er nú líklega ekkert leiðinlegt að koma í heimsókn til Verona. Pabbi kom líka oft til okkar, jafnvel sjö til átta sinnum á ári þegar hann var á lífi.“

Pabbi Emils, Hallfreður, lést þann 22. september fyrir tveimur árum. „Mín fyrirmynd í lífinu er pabbi minn, ég var alltaf mikill pabbastrákur. Hann var með mér í þessu öllu saman. Hann fór með mér alla leið í þessu,“ segir Emil og bætir við að hann hefði ekki getað þetta án hans. Hann hafi verið hans besti vinur og mikilvægasta persónan í lífi hans.

HM

Um helgina mun íslenska landsliðið etja kappi við Króata í mikilvægum leik í undankeppni HM 2018. Emil varð þó að draga sig út úr hópnum á síðustu stundu vegna meiðsla. „Við strákarnir í landsliðinu höldum góðu sambandi og það er mjög góður andi í hópnum. Við erum allir í WhatsApp-grúppu og grínumst þar og höldum sambandi. Mig langaði t.d. mikið til þess að koma og vera með hópnum fyrir Tyrkjaleikinn þó svo að ég væri tæpur vegna meiðsla. Það að vera til staðar þó maður spili ekki skiptir máli, maður getur smitað stemmningu út frá sér á annan hátt.“

Emil lítur björtum augum á leiðina á HM og telur liðið eiga möguleika. „Ef við einbeitum okkur að því markmiði og tökum einn leik í einu þá held ég að við höfum alla burði til þess að komast þangað. En nú þarf að einbeita sér að því að vinna Króatana. Sá leikur skiptir miklu máli.“

Birkir Bjarnason, Theodór Elmar Bjarnason, Emil og Ari Freyr Skúlason

Birkir Bjarnason, Theodór Elmar Bjarnason, Emil og Ari Freyr Skúlason

Hápunktar á ferlinum?

„Þegar við fórum úr Seríu C upp í Seríu B með Hellas Verona, þegar fyrsta markmiðinu var náð. Svo þegar lokaflautan gall þegar við unnum og komumst upp í Seríu A. Þá var ég svo hrikalega glaður. Tveir miklir sigrar persónulega fyrir mig. Þar sem mér fannst ég hafa tekið tvö skref niður á við þegar ég kom upphaflega grátandi en fór svo grátandi þaðan, því það var svo erfið ákvörðun að fara. EM í sumar var náttúrulega frábært þó ég hefði vilja spila meira en það var mjög skemmtileg upplifun líka.“

Góð ráð

Það er ekki hægt að sleppa slíkum afreksmanni án þess að spyrja hann um góð ráð fyrir þá sem vilja ná árangri í íþrótt sinni.

„Það er alltaf talað um að æfingin skapi meistarann en ég vil meina að aukaæfingin skapi meistarann. Það virkaði allavega í mínu tilfelli. Og svo þarf maður að vera krítískur á sjálfan sig, reyna að sjá hvar maður getur bætt sig,“ segir hinn hógværi Emil Hallfreðsson að lokum og sendir góðar kveðjur heim í Hafnarfjörðinn.

Hraðaspurningar

Uppáhalds staður í Hafnarfirði?

Kaplakriki.

Hver er herbergisfélagi þinn í landsliðinu?

Birkir Bjarnason.

Hafnarfjarðarbrandari?

Kann engan, orðinn Ítali.

Sunnudagsmaturinn?

Hryggur með sósu og brúnuðum kartöflum.

Besti leikmaður sem þú hefur spilað með?

Luca Toni.

Erfiðasti andstæðingur í boltanum?

Paul Pogba, rosalega erfiður í fyrra og fór illa með mig.

Ef þú hefðir ekki orðið knattspyrnumaður þá hefðir þú orðið…?

Leikstjórnandi í NFL.

Rautt eða hvítt?

Hvítt.

Hvað gast þú haldið bolta á lofti oft (síðast þegar þú taldir)?

Fimmþúsund og eitthvað síðast þegar ég taldi og bætti metið mitt. Þegar ég var tólf ára.

Hundar eða kettir?

Hundar.

Út að hlaupa eða út að hjóla?

Út að hlaupa.

Frægasti einstaklingur í símaskránni þinni?

Líklega Luca Toni.

Uppáhaldsdrykkur?

Íslenskt vatn.

Hefur þú grátið yfir bíómynd?

Já.

Uppáhalds tónlistarmaður?

Mér finnst John Mayer mjög góður.

Syngur þú í sturtu?

Ég syng stundum, já.