Í dag er Hafnarfjörður á mun betri stað hvað varðar fjárhag og þjónustu við íbúa en hann var fyrir fjórum árum. Og hvað sem andstæðingar núverandi meirihluta segja er þessi staða ekki sjálfgefin. Í fyrsta skipti í það minnsta frá árinu 2002 er verið að lækka skuldir sveitarfélagsins, framkvæma fyrir eigið fé, auka þjónustu og lækka álögur á bæjarbúa. Til framtíðar litið verður þetta svona áfram fáum við áframhaldandi umboð í komandi kosningum.

Skipulagsmál

Glæsilegt skipulag í Skarðshlíð liggur fyrir, búið er að úthluta yfir 350 íbúðum og framkvæmdir komnar af stað ásamt því að bygging grunn- tónlistar- og leikskóla er vel á veg komin. Skipulag í Hamranesi er í ferli þar er m.a. gert ráð fyrir smáhýsum og litlum íbúðum. Dvergur var rifinn og innan skamms verður hafist handa að reisa lágreista byggð á reitnum. Suðurgata 44, gamli Kató fær nýtt hlutverk með 12 nýjum íbúðum.

Stóru skipulagsmálin

Rammaskipulag á Hraunum – vestur, fimm mínútna hverfið, er á lokametrunum og fer væntanlega í auglýsingu í mánuðinum. Þar er gert er ráð fyrir 2.300 íbúðum,  þar verða einnig skóli, leikskólar, verslun og þjónusta. Niðurstaða úr samkeppni um Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði mun liggja fyrir á 110 ára afmæli Hafnarfjarðarbæjar þann 1. júní. Alls bárust 14 tillögur sem verða sýndar við afhendingu verðlauna á tillögunum. Skipulag miðbæjarins er í ferli og hefur verið ráðin verkefnastjóri til að stýra þeirri vinnu.  Margt spennandi að gerast í skipulagsmálum bæjarins.

Ó. Ingi Tómasson

Bæjarfulltrúi og formaður skipulags- og byggingarráðs (D)