Hafnarfjarðarbær hefur í mörg ár staðið sem eitt öflugasta bæjarfélag Íslands hvað varðar árangur í íþróttum. Maður þarf ekki annað en að taka sér eilítinn göngutúr í íþróttahús bæjarins, til að skoða árangurinn í formi eðalmálma. Öflugir yngri flokkar hafa skapað gríðarlega íþróttamenningu þar sem stemmningin leynir sér ekki hjá keppnissömum bæjarbúum.

Ef við höldum í annan  göngutúr og leggjum leið okkar niður  í miðbæ Hafnarfjarðar, kippum með okkur einum dísætum saltkaramellu Frappóchino af Súfistanum og stöldrum við í Bæjarbíói. Lykt af fornum sigrum og stolti fylla nasir okkar áður en við dustum rykið af sætinu okkar. Loks höldum við út og komum við í hinu efnilega Gaflaraleikhúsi. Bjartsýni og eljusemi tekur við manni þrátt fyrir að fjárveitingar séu af skornum skammti.

Miðað við hvað það er góð stemmning meðal bæjarbúa með tilliti til íþrótta tel ég að sama stemmning gæti myndast ef menningarmál eru tekinn föstum höndum hér í Hafnarfjarðarbæ. Það þarf að ráðast beint að kjarna málsins og veita ungu og efnilegu kynslóðinni vettvang til að koma sínum hugmyndum á framfæri. Við hjá Framsókn og óháðum viljum opna Menningarhús fyrir ungt skapandi fólk sem kemur saman til að deila sínum hugmyndum og loks fá tækifæri til að framkvæma þær.
Við eigum gríðarlega flóru af ungu efnilegu fólki hvort sem það aðhyllist íþróttir eða hina skapandi list. Veitum öllum jöfn tækifæri og eflum menninguna í Hafnarfirði með auknum tækifærum fyrir ungt skapandi listafólk í okkar fallega bæ.

Einar Baldvin Brimar
5.sæti Framsókn og óháðir