Okkar fólk í framboði til Alþingis

Fjarðarpósturinn hafði samband við þá Hafnfirðinga sem skipa efstu sæti á framboðslista hvers stjórnmálaafls fyrir sig og munu þeir kynna sig og stefnu síns flokks í þessu tölublaði og í næstu viku.

 

Enn á ný göngum við til kosninga.  Nú reynir sem fyrr á þol kjósenda að kynna sér málefni flokkanna í  glundroða kenndri umræðu sem einkennst hefur af upphrópunum, gylli boðum og innanflokks deilum.  Á Íslandi þarf að komast á stöðugleiki og ró í stjórnmálum svo hægt sé að endurheimta það traust sem nauðsynlegt er að ríki milli almennings og stjórnsýslunnar. Hér þarf að taka við traust ríkistjórn að loknum kosningum með skýrt umboð þjóðarinnar .

Minnkum álögur á einstaklinga og fyrirtæki

Sjálfstæðisflokkurinn hefur skýra málefnaskrá og trausta frambjóðendur til að takast á við þá áskorun. Við viljum viðhalda stöðugleikanum og minnka álögur á fyrirtæki og einstaklinga þannig þau geti dafnað sem best. Velferð samfélags er ekki tryggt í höndum stjórnmálamanna heldur á valdið að liggja sem mest hjá fólkinu sjálfu.  Það er grunn stefna Sjálfstæðisflokksins.  Höldum áfram að byggja á þeim frábæra árangri sem náðst hefur á undanförnum árum undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Hefjum sókn í endurbótum heilbrigðiskerfisins og samgöngumálum nú loks þegar hlutirnir eru að falla okkur öllum í hag.  Atvinnuleysi mælist varla, hér er verðbólga lág og vextir fara lækkandi.  Leyfum Íslendingum sjálfum að byggja hér traust og sanngjarnt samfélag í heilbrigðu umhverfi eins og þekkist í hinum frjálsa heimi og höfnum innistæðu lausum gylli boðum sem fela í sér ríkisafskipti, álögur og takmarkanir. Byggjum sjálf upp betra samfélag.

 

Kristín Thoroddsen, í 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins suðvestur.