Ég fer mikið með ormana mína upp fyrir bæinn.
Einn daginn man ég að tveir nafntogaðir menn komu ríðandi ægilega vígalegir á klárunum sínum að Hvaleyrarvatni.
Að þustu hundarnir mínir og gerðu heiðarlega tilraun til að þefa af rössum aðkomudýranna eins og hunda er vani.
Svo streymdi að her barna til að klappa bæði hundum og hestum.
Eini gallinn við þessa stórskemmtilegu uppákomu var að þetta var allt harðbannað.
Hundar og hestar voru þarna staddir í trássi við regluverk.
Ég þakka bara fyrir að hafa ekki þurft að hafa börnin í bandi.
Ég hlusta ekki á svona vitleysisþvælu. Hundurinn minn og allnokkrir aðrir hundar æfa þarna reglulega sundtökin í eltingaleik við bolta og það er ekki að ræða það að ég ætli að vaða eftir dýrinu með spottaskarnið til að hlýða þessu skilti sem einhver regluverksbéusinn hengdi þarna á staur.
Eins datt einhverjum þrígildum þorskhausnum í hug að banna lausagöngu hunda við Helgafellið.
Hver setur svona reglur?
Er tekin ákvörðun um þetta á bæjarstjórnarfundum eða er það bara einhverju fúllyndu skúffudýri í sjálfsvald sett að ákveða hvernig hlutirnir eiga að vera.
Ég reyni eftir megni að kenna krökkunum mínum löghlýðni, en það er ekki að ræða það að ég reyni að réttlæta það að draga hundinn eins og kerru í kringum Helgafellið.
Nú biðla ég til bæjarstjórnenda.
Nennið þið að fara yfir öll þessi fjárans bannskilti með það fyrir augum hvort ekki megi henda stórum hluta þeirra með viðhöfn fram af Óseyrarbryggju á sautjánda júní.
Ást og friður
Tommi.