Undirritaðir bæjarfulltrúar í Hafnarfirði hafa farið fram á að boðað verði til fundar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar sem haldinn verði eigi síðar en miðvikudaginn 15. ágúst nk.  Beiðnin kemur í framhaldi af ákvarðanatöku um breytt áform varðandi knatthús sem keyrð var í gegn með meirihlutavaldi á lokuðum fundi í miðju sumarleyfi bæjarstjórnar og bæjarráðs, þar sem einungis 3 af 11 bæjarfulltrúum samþykktu stefnubreytingu í málefnum er varða uppbyggingu á íþróttamannvirkjum. Fulltrúar fengu afar skamman fyrirvara á tillögunni og skorti verulega á gögn og upplýsingar varðandi forsendur hennar. Fulltrúar þeirra flokka sem sitja í minnihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar draga lögmæti ákvörðunarinnar í efa enda er umboð bæjarráðs til ákvarðanatöku í sumarleyfi bæjarstjórnar ekki hugsað til töku stefnumarkandi ákvarðana heldur eingöngu í þeim tilgangi að tryggja eðlilega afgreiðslu mála sem eru til meðferðar í stjórnkerfinu. Einungis tveir af fjórum flokkum í minnihluta bæjarstjórnar eiga atkvæðisrétt í bæjarráði og hafa því ekki haft neina aðkomu að ákvarðanatökunni. Það er því eðlilegt að bæjarstjórn taki ákörðunina til opinnar og málefnanlegrar umfjöllunar þar sem fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn eiga fulltrúa og atkvæðisrétt.

Adda María Jóhannsdóttir, Samfylkingu, s. 694-3134
Friðþjófur Helgi Karlsson, Samfylkingu, s. 863-6810
Guðlaug Kristjánsdóttir, Bæjarlistanum, s. 899-2873
Jón Ingi Hákonarson, Viðreisn, s. 690-9171
Sigurður Þ. Ragnarsson, Miðflokki, s. 894-6810