Vegfarendur um miðbæ Hafnarfjarðar vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar palltrukk var lagt við Pylsubarinn sem svið og Gunnar Helgason og Felix Bergsson hófu að kynna óvænta dagskrá. Fríar pylsur voru í boði og myndaðist löng röð við Pylsubarinn. Fljótlega tók fólk að streyma að til að fylgjast með. Söngvarinn ljúfi og hafnfirski Friðrik Dór Jónsson var síðan kallaður á svið og þá kvissaðist fljótt út meðal viðstaddra að verið væri að steggja hann. 

Föruneyti Friðriks Dórs kom á staðinn í heljarinnar langferðabiðfreið og steig skellihlæjandi út. Þessi óvænta skemmtidagskrá fyrir almenning var þá löngu fyrirfram plönuð, búið að láta prenta á boli sem föruneytið klæddist, ýmsar tilvitnanir í texta eftir söngvarann. Aftan á bolunum var svo mynd af Friðriki Dór með áletruninni „Friðrik Dór og fríar pylsur 8.8.18“.

Friðrik Dór var látinn syngja nokkur vel valin lög á borð við Eurovisjón slagarann Lítil skref, stuðningsmannalag Hauka, Spenntur fyrir þér með Magna og svo sló hann ærlega í gegn hjá yngstu kynslóðinni þegar hann söng eigið lag, Glaðasti hundur í heimi. Formlegri dagskrá lauk svo með laginu Skál fyrir þér, en þá fór föruneytið upp á svið og söng með.

Í Haukabúningi og stökk í sjóinn

Friðrik var klæddur í Haukabúningi en eins og margir vita er hann einhver harðasti FH-ingur sem til er og starfar til að mynda sem vallarþulur á heimaleikjum FH í Pepsi-deild karla.

Þessi hluti af steggjuninni var einungis brot af því sem beið söngvarans í tilefni dagsins. Auðveldlega má fylgjast með dagskánni víða á samfélagsmiðlum meðal vina hans og bróður, Jóns Jónssonar, en hann stýrði dagskránni og leiddist það ekkert sérstaklega.

Eftir atriðin á sviðinu var tilkynnt að Friðrik Dór myndi stökkva í sjóinn í Hafnarfjarðarhöfn og viðstaddir fylgdust vel með og var það atvik kyrfilega fangað á fjölda farsíma.

Friðrik Dór og unnusta hans, Lísa Hafliðadóttir, verða pússuð saman á Ítalíu seinna í mánuðinum.

Fjarðarpósturinn var í miðbænum og smellti af meðfylgjandi myndum.

Myndir/OBÞ