Fræðsluráð samþykkti á fundi sínum í dag að hefja gjaldfrjálsan frístundaakstur fyrir sex og sjö ára börn í haust. Til að byrja með verður ekið með börnin á æfingar hjá Fimleikafélaginu Björk, FH og Haukum. 

Undirbúningur hefur verið unninn með fulltrúum frá þessum félögum út frá hugmyndum starfshóps um frístundaakstur sem skilaði af sér tillögum í vor. Stoppustöð verður sett upp við hvern grunnskóla í Hafnarfirði og þar verða börnin sótt og flutt á æfingar hjá þessum félögum sem hefjast um kl. 15. Starfsmenn frá frístundaheimilum munu fylgja börnum í bílinn og að æfingarsvæði. Forráðamenn munu svo sækja börn sín á svæði íþróttafélaga milli kl. 16-17. Þessi þjónusta mun kosta Hafnarfjarðarbæ milli þrjár til fjórar milljónir.

Hér er fyrsta skrefið stigið í að stytta skóladag yngstu barnanna og gera vinnudag þeirra meira spennandi, koma enn betur til móts við óskir foreldra, auka samveru foreldra og barna og nýta íþróttamannvirki enn betur.

 

Mynd: Frá hreyfidegi í Kaplakrika.