Á síðasta skólaári hófst frístundaakstur aftur í Hafnarfirði og ekið var með 6 og 7 ára nemendur á æfingar hjá þremur íþróttafélögum. Fram kemur í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ að tilraunin hafi tekist afar vel og 300 nemendur nýttu sér aksturinn í hverri viku. Á skólaárinu sem var að hefjast verður öllum nemendum 1. – 4. bekkjar boðið upp á akstur á æfingar sem hefjast klukkan 15:00 og 16:00.

Aksturinn hefst 3. september og eru upphafstaðir akstursins hver grunnskóli í Hafnarfirði. Ekið verður á fjölmarga staði eins og til Listdansskólans, tónlistarskólans, Bjarkanna, FH, Hauka og SH. Æfingatöflur liggja nú fyrir hjá flestum íþróttafélögum og eru fjölmargir foreldrar byrjaðir að skrá börnin sín þar. Verkefnið er unnið í samvinnu Hafnarfjarðarbæjar við íþróttafélögin og Hópbíla. Skráning í aksturinn fer fram í gegnum frístundaheimilin og verður aksturinn foreldrum að kostnaðarlausu. Starfsmaður frá hverju frístundaheimili verður með í hverri ferð og tryggir öryggi krakkanna í rútunni.

Þessu verkefni er ætlað að stytta vinnudag barnanna, auka þjónustu við foreldra, nýta íþróttamannvirkin enn betur, styðja við starf íþrótta- og tómstundafélaga, auka aðgengi allra barna að heilbrigðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og gera starf frístundaheimilanna enn skemmtilegra.