Frístundastyrkir vegna þátttökugjalda í íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn á aldrinum sex til átján ára hækkuðu þann 1. janúar 2018, úr 3.000 kr. á mánuði í 4.000 kr. eða um 33% og hægt er að nota styrkinn 12 mánuði á ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ. 

Frá og með áramótum geta nemendur í tónlistarnámi eins og í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar einnig notað frístundastyrkinn. Nú geta því börn stundað ýmsar tómstundir innan eða utan Hafnarfjarðar, í íþróttum, menningar- eða sköpunarnámi og öðrum tómstundum. Er þetta mikilvægt til þess að efla börn á þeim vettvangi sem þau vilja og virkja þau í tómstundum.

Markmið niðurgreiðslna er að gera börnum með lögheimili í Hafnarfirði kleift að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi óháð efnahag fjölskyldna og að efla íþrótta- og annað forvarnastarf.

Árið sem barn verður 6 ára byrjar það að fá styrk 1. janúar og hættir að fá styrk 31. desember árið sem það verður 17 ára, þ.e. börn fædd 2001-2012 árið 2018. Ekki er hægt að fá þennan styrk nema einu sinni í hverjum mánuði.

Ráðstöfun frístundastyrks fer fram á MÍNAR SÍÐUR á hafnarfjordur.is eða heimasíðu viðkomandi félags.

Nánari upplýsingar um frístundastyrki