Vissir þú að…

Í því skyni að stofna skóla til minningar um son sinn, Böðvar, keyptu prófastshjónin á Görðum, Þórarinn Böðvarsson og Þórunn Jónsdóttir, jörðina Hvaleyri 1870 og lýstu yfir að þau væru tilbúin að gefa hana til fyrirhugaðs skólaseturs. Hugmyndir um fyrirhugaðan Hvaleyrarskóla voru þá meðal annars teknar upp á Þingvallafundi 1874 og á Alþingi 1875 og 1877. Þrátt fyrir að almennt væri borin mikil virðing fyrir gjöfinni voru menn ekki tilbúnir til að reisa skólahús sem var forsenda þess að hægt væri að nýta gjöfina. Varð það því úr að sumarið 1876 keyptu þau hjónin húseignina „Flensborg“ í Hafnarfirði og bættu við gjöfina.

Flensborg fyrir 1930. 

Hinn 10. ágúst 1877 skrifuðu Þórarinn og Þórunn formlega undir gjafabréf til stofnunar alþýðuskóla í Flensborg. Þetta gerðu þau til að „… heiðra minningu þessa okkar ógleymanlega sonar með því að gefa nokkurn hluta af eignum okkar til einhvers þess fyrirtækis, sem eflt gæti menntun og góða siði meðal almennings í föðurlandi okkar“. Kennsla hófst í þessum skóla strax haustið 1877 en þennan fyrsta vetur voru um 20 börn í skólanum.