Íbúi við Norðurbakka hafði samband við Fjarðarpóstinn og sagðist ítrekað hafa kvartað við bæjaryfirvöld vegna skólprörs sem nær út í sjóinn rétt við íbúðablokkirnar þar sem dælustöðin er. Máva- og fuglagerið þarna við hornið sé stundum óbærilegt, mávarnir skíti á rúðurnar og svalirnar og hann sjái furðu lostna ferðamenn sem labbi þarna fyrir hornið við bryggjuna. Einnig finni gangandi vegfarendur fyrir ólykt við dæludstöðina. Við höfðum samband við Guðmund Elíasson, umhverfis- og veitustjóra hjá Umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar.

 „Rörið sem um er að ræða er svokallað yfirfallsrör eða neyðarútrás. Það er ekki nýtt nema ef um bilanir eða viðhald er að ræða eða óvenjumikið álag á fráveitukerfið. Óvenju mikið álag á fráveitukerfið myndast af rigningarvatni og bakrásarvatni hitaveitu en þá er mikil þynning á skólpinu sem fer um yfirfallsrörið,“ segir Guðmundur. Þegar um bilanir eða hreinsun kerfisins sé að ræða sé fráveitunni veitt um þetta yfirfall og þá reynt að hafa þann tíma eins stuttan og mögulegt er. „Í þeim tilfellum er heilbrigðiseftirlitið látið vita en þar er fylgst með að fráveitan vinni samkvæmt reglugerð 798/1999 um fráveitur og skólp. Því miður er staðan þannig núna að ein af þremur dælum í Hraunavík er biluð og eru varahlutir í pöntun. Í áætlunum fráveitu fyrir árið 2018 er ekki gert ráð fyrir breytingum eða framkvæmdum við neyðarútrásina.“

Dælustöðin Krosseyri og Norðurbakkinn.

 

Myndir: OBÞ