Helga Kristín Gilsdóttir, alltaf kölluð Helga Stína, er fædd og uppalin í Hafnarfirði og get með sanni kallað sig Gaflara þar sem ég fæddist á Sólvangi. Hún gekk í Lækjarskóla, er stúdent frá Flensborgarskólanum og nam íslensku í HÍ og kennslufræði við Háskólann í Reykjavík. Helga Stína kennir íslensku í Flensborg og hún er matgæðingur vikunnar.

Helga Stína er gift Guðlaugi Baldurssyni knattspyrnuþjálfara og eiga þau fjögur börn á aldrinum 8-24 ára, þrjár stúlkur og einn dreng. Íþróttir eru aðaláhugamál allra fjölskyldumeðlima og þá sérstaklega fótbolti, en öll börnin hafa æft fótbolta. Á stóru heimili er matur stór þáttur í lífi þeirra og allir vilja fá eitthvað hollt og gott. Því hefur eldamennska og bakstur óneitanlega tekið nokkuð af tíma Helgu í gegnum árin og veit ég fátt skemmtilegra en að elda og baka sérstaklega þegar ég hef fólk í kring um mig sem vill borða.

„Í starfi mínu sem framhaldsskólakennari fæ ég gott sumarfrí en að sama skapi er eiginmaðurinn og börnin upptekin af fótboltaiðkun yfir sumartímann og því ferðumst við ekki á sumrin. Síðastliðið sumar ákvað ég því að deila með fylgjendum mínum á snapchat uppskriftum og aðferðum við að búa þær til. Og þar sem flestir dagar yfir sumartímann snúast um leiki og æfingar fjölskyldumeðlima og að sjá til þess að þeir séu vel nærðir fyrir þau verkefni sem bíða þeirra var þetta leikur einn. Snappið mitt er Helga Kristín“

Hvað matarræði varðar þá borðar fjölskyldan bara almennan heimilismat og reynur að vera ekki með neinar öfgar og fylgja ráðum frá Latabæ um að hafa sitt lítið af hverju á sínum borðum. Oftar en ekki er það einfalda sem flestum líkar best.

Þessi réttur er í miklu uppáhaldi á heimilinu þar sem hann er bæði einfaldur, fljótlegur, hollur og inniheldur flest þau næringarefni sem íþróttafólk sækist eftir í einni máltíð. Döðlunum og ólívunum má auðveldlega sleppa en séu þær hafðar með er einnig lítið mál fyrir þá sem ekki líkar að tína þær í burtu.

Kjúklingur með rauðu pestói, feta  osti og sætum kartöflum (f. 4 )

800 gr kjúklingabringur

1 krukka feta ostur í olíu

1 krukka rautt pestó

Svartar steinlausar ólívur ( má sleppa)

150 gr döðlur (má sleppa)

Salt&pipar

 1. Skerið kjúklingabringurnar í þrjá bita og leggið í eldfast mót. Saltið & piprið.
 2. Stappið feta osti og ca. 1/3 hluta af olíunni sem hann er í saman við pestóið og setjið blönduna yfir kjúklingabringurnar.
 3. Ef vill stráið yfir ólívum og döðlum
 4. Bakið við 180°c í 40-50 min.

Sætar kartöflur

 1. Afhýddar og skornar í teninga.
 2. Settar á bökunarplötu (ég set bökunarpappír undir), olíu og salti stráð yfir.
 3. Bakað við 180°c í ca. 20-25 mín.

 

Hjónabandssælan er klassísk og smakkast miklu betur en hún lítur út fyrir. Við borðum hana bæði heita með ís eða þeyttum rjóma og þá gjarnan sem eftirrétt og svo næstu daga á eftir með ískaldri mjólk.

Hjónabandssæla með döðlum

250 gr mjúkt smjör

2 bollar púðursykur

2 ½ bolli hveiti

3 bollar haframjöl

2 tsk. lyftiduft

2 tsk. matarsódi

200 gr döðlur

Vatn + matarsódi

 1. Hrærið saman í hrærivél smjöri og púðursykri.
 2. Bætið út í hveiti, lyftidufti, matarsóda og síðast haframjöli.
 3. Setjið döðlurnar í pott, látið vatn fljóta yfir þær og setjið 2 tsk. matarsóda út í (til að flýta f. suðunni á döðlunum). Sjóðið þar til þetta er orðið að sultu (tekur 5-10 mín)
 4. Setjið ¾ hluta af deiginu í hringlaga form, þá döðlusultuna og svo ¼ af deiginu yfir.
 5. Bakið við 180°c í 25-30 mín.

 

Súkkulaðimúsin er í mestu uppáhaldi hjá öllu heimilisfólki og ég bý hana til við hátíðlegri tækifæri s.s. á jólum og afmælum. Fallegast finnst mér að bera hana fram í glasi á fæti og skreyta með þeyttum rjóma og berjum.

Súkkulaðimús

300 gr suðusúkkulaði

50 gr smjör

4 egg

100 gr sykur

5 dl rjómi

 1. Bræðið yfir vatnsbaði súkkulaði og smjör.
 2. Hrærið saman egg og sykur þar til það er létt og ljóst.
 3. Þeytið rjómann í sér skál.
 4. Blandið súkkulaði og smjöri saman við egg og sykur.
 5. Að lokum er rjómanum blandað saman við allt saman.
 6. Látið standa í kæli í a.m.k. 2-3 klst. áður en borið er fram.

 

Kjúklingasúpa frá Perú (f. 4)

Um áramótin síðustu dvöldum við fjölskyldan í Miami hjá vinkonu okkar sem er frá Perú. Hún bauð okkur upp á þessa dásamlegu súpu og við fengum uppskriftina með okkur heim, ásamt chili frá Perú. Mér finnst ekkert betra en að elda matarmiklar súpur sem endast jafnvel í máltíð daginn eftir líka. Þessi súpa bragðast jafnvel í 30 stiga hita sem og á dimmu íslensku vetrarkvöldi og er svo sannarlega ein af þeim sem elduð er reglulega á okkar bæ.

800 gr beinlaust kjúklingakjöt – ég nota gjarnan bringur og læri

1 laukur

2-3 hvítlauksrif

1 græn paprika

1 bolli frosnar grænar baunir

1 bolli hrísgrjón

2-300 gr kartöflur

1 búnt kóríander

2 msk. rautt chili mauk

Salt – pipar – kjötkraftur eftir smekk

 

 1. Steikið kjúklinginn í potti og setjið til hliðar
 2. Steikið saxaðan hvítlauk, lauk, kóríander og papriku
 3. Setjið 1,5-2 l af vatni og 2 msk. af chili mauki
 4. Bætið út í kartöflum, hrísgrjónum og baunum
 5. Látið malla í 30-60 mín.