Björn Erlingsson verður með fyrirlestur í Bókasafni Hafnarfjarðar, þriðjudaginn 6. nóvember nk. kl. 17.00, í tilefni af 10 ára „afmæli“ bankahrunsins.

Björn, ljósmyndari og rithöfundur, gaf út ljósmyndabókina Ísland á umbrotatímum árið 2011. Bókin fjallar um hrunið og ýmsa atburði sem voru efst á baugi í samfélaginu á þeim tíma og næstu árin þar á eftir sem höfðu mikil áhrif á líf fólks.

Í fyrirlestrinum veltir Björn fyrir sér hvernig samfélagið hefur þróast og áhrif fjármálakreppunnar sem fylgdi í kjölfar bankahrunsins. Einnig verður rætt um aðdraganda hrunsins, svo kallað „góðæri“ og viðhorf fólks í þeim efnum.

Sýndar verða fjölmargar ljósmyndir úr bókinni Ísland á umbrotatímum og rifjaðir upp ýmsir óvenjulegir atburðir sem munu seint gleymast, svo sem búsáhaldabyltingin, eldgos og áhrif þeirra á ferðamenn og þá miklu athygli sem Ísland fékk víðs vegar um heiminn. Þá verður fjallað um breytta tíma, hina horfnu sveit, náttúruvernd og stóriðjuframkvæmdir.

Varpað verður upp ýmsum áleitnum spurningum er tengjast hinni fámennu þjóð og á hvaða leið hún sé. Hvað höfum við lært? Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Hér er hlekkur á viðburðinn.