Hafnfirðingurinn Bryndís Björgvinsdóttir setti þrjú Íslandsmet í flokki kvenna í öllum þeim greinum sem keppt var í á móti sem fór fram í Laugardalslaug í fyrsta skipti á Íslandi í byrjun ágúst. Bryndís hefur æft fríköfun í eitt ár en æfingar hafa farið fram í Sundhöll Hafnarfjarðar.

Fríköfun getur bæði verið áhugamál og keppnisgrein en hún felst í því að kafað er án súrefnisbúnaðar. Á mótinu var keppt í þremur greinum: kafsundi án fita, kafsundi með fitum og tímatöku. „Það er að segja, hversu lengi einstaklingur getur haldið í sér andanum í kafi. Í kafsundi án fita fór Bryndís 53 metra, með fitum 68 metra og hélt í sér andanum í kafi í þrjár mínútur. Sú sem bar þó sigur úr bítum var frá Þýskalandi og synti hún til að mynda 132 metra í kafsundi með fitum og hélt í sér andanum í 4 mínútur og 37 sekúndur.

Félagsskapur fríkafara á Íslandi

Á mótinu voru keppendur aðallega frá Þýskalandi, Svíþjóð og Íslandi. Bryndís byrjaði að æfa fríköfun á Tenerife fyrir rúmu ári síðan þar sem hún hafði alltaf haft gaman af kafsundi í skólasundi og langaði til að læra betur þá tækni sem iðkuð er í fríköfun, en kærasti hennar hafði þá æft fríköfun í ár. „Á Íslandi er til félagsskapur fríkafara – Freediving in Iceland – og hefur sá félagskapur æft á veturna einu sinni til tvisvar í viku hvoru tveggja í Sundhöll Hafnarfjarðar og Sundhöll Reykjavíkur. Öllum er fjálst að kynna sér félagskapinn,“ segir Bryndís.

Æfir þar sem hún lærði skólasund
Fríköfun er íþrótt sem stunduð er af báðum kynum á öllum aldri og byggist að mestu á ákveðinni tækni og slökun sem hvoru tveggja gerir kafarnum kleift að vera lengur í kafi og hreyfanlegri í vatninu. „Mér finnst sérstaklega skemmtilegt að hafa komist að því að æft væri í gömlu sundhöllinni í Hafnarfirði þar sem ég lærði skólasund á sínum tíma. Það fólst ákveðinn sigur í því að geta kafað niður „að stjörnunni“ og legið þar án þess að finna fyrir óþægindum eða erfiðleikum. En þeir sem þekkja ekki til, þá má sjá mynd af stjörnu á botni dýpsta enda laugarinnar sem margir muna kannski eftir úr skólasundi.“

 

Forsíðumynd: Bryndís ásamt danska dómaranum sem tilkynnti úrslitin.