Tónlistarmaðurinn Arnar Þór Gíslason, eða Addi í m.a. Pollapönk, Stólíu og miklu fleiri böndum, varð fertugur 8. apríl sl. Hann hélt upp á afmæli sitt í troðfullu Bæjarbíói kvöldið áður, þar sem vinir hans ættingjar greiddu aðgangseyri sem Addi hét að myndi renna óskiptan í gott málefni tengt ungu fólki í Hafnarfirði. Fjölgreinadeildin í gamla Lækjarskóla fékk helming fjárins á dögunum og veitti Kristín María Indriðadóttir (Stína Mæja), umsjónarmaður deildarinnar, styrknum viðtöku. Hinn helminginn fékk félagsmiðstöðin Músík og mótor og tók Birgir Þór Halldórsson á móti honum.

Ásamt dóttur sinni, Emblu Guðríði.

„Þetta er einstakt og ég veit að Addi vill að við nýtum þennan pening í tónlistina hjá okkur og það munum við gera. Við erum að útbúa tónlistaraðstöðu í smíðastofunni úti á lóðinni, þar sem við getum veri út af fyrir okkur án þess að trufla,“ sagði Kristín María. Fjölgreinadeildin á hljómborð og kassagítara en vantar ýmislegt svo að styrkurinn kemur sér vel. „Vonandi getum við búið til einhverja minningu um deildina til að gefa Arnari Þór. Hér eru einstaklingar sem eru skapandi, klárir og lausnamiðaðir og hér hafa verið útskrifaðir 200 unglingar síðan árið 2005.“

Ávísunin – takið eftir trommusettinu neðst.

Styrkur frá fjölda manns

Addi þekkir vel að vera í unglingahljómsveit og vera í aðstöðu- og tækjavanda og mun láta hinn helming styrkjarins fara í tækjakaup fyrir unglingahljómsveitir í félagsmiðstöðinni Músik og mótor. Addi kenndi sjálfur krökkum að tromma í Fjölgreinadeildinni og í stuttri ræðu þakkaði hann styrkþegum fyrir þeirra góða starf. „Það sem þið eruð að gera hérna er magnað. Þegar ég kom hingað fyrir mörgum árum þá fann ég kraftinn sem hér er og hvað þetta skiptir miku máli fyrir krakkana. Þau finna sig hér. Þessi styrkur er frá öllum sem komu að þessum tónleikum. Gestunum, Bæjarbíói og öllum sem fram komu. Ég átti bara hugmyndina og setti hana í framkvæmd. Kærar þakkir fyrir mig.“

Frá tónleikunum í Bæjarbíó. /Myndir þaðan í eigu Adda.

Adda líður best fyrir aftan trommusettið en þarna tók hann lagið standandi.