Nýverið komu nokkrir félagar úr Lionsklúbbi Hafnarfjarðar í heimsókn til Björgunarsveitar Hafnarfjarðar og eins og fyrri daginn komu þeir færandi hendi og færðu sveitinni myndarlega fjárupphæð að gjöf. Fjárhæðin verður nýtt til kaupa og þjálfunar nýs leitarhundar sveitarinnar, Urtu.

Lionsklúbburinn hefur um margra ára skeið stutt Björgunarsveitina fjárhagslega og hefur hin seinni ár einbeitt sér í að styrkja  þjálfun leitarhunda sveitarinnar. Björgunarsveit Hafnarfjarðar er eina björgunarsveit landsins sem heldur leitarhund og það er hún Perla. Perla hefur unnið mörg frábær afrek þó ekki sé hún gömul, aðeins 7 ára. Hún hefur verið í eigu sveitarinnar frá því hún var þriggja ára gömul, en þá var hún keypt frá Bandaríkjunum.

Þjálfun kostar tíma og pening

Nú hefur sveitin fest kaup á nýjum leitarhundi henni Urtu, sem er aðeins rúmlega árs gömul, en hún er frá Ungverjalandi. Báðar eru þær blóðhundar, en þeir eru mikið notaðir til leitar í Bandaríkjunum og Þýskalandi bæði af björgunarsveitum og lögreglu. Þórir Sigurhansson, sem þjálfar þær stöllur segir Perlu frábæran leitarhund og Urta sé mjög efnileg, en hún er enn í grunnþjálfun og verður fyrst hægt að reyna hana til leitar seint á árinu 2018. Mikill tími og fjármunir fara í þjálfun leitarhunda og á Björgunarsveit Hafnarfjarðar miklar þakkir skildar frá þjóðinni fyrir dugnað sinn þeim efnum sem og öðrum störfum sínum.

Stjórn Lionsklúbbsins ásamt formanni Björgunarsveitarinnar frá  vinstri. Magnús Jónsson, gjaldkeri, Gísli Johnsen, formaður Björgunarsveitarinnar, Guðjón Þórir Þorvaldsson, formaður Björgunarsveitarinnar, Magnús Baldursson, ritari.

 

Forsíðumynd: Lionsfélagar með Þóri og Urtu. Frávinstri: Gunnar Auðunn, Magnús Jóns, Birgir Jóhannesson, Magnús Bald, Jón Rúnar, Urta, Þórir þjálfari, Hrafn Freysson (framtíðar Lionsfélagi), Guðjón Þórir, Geir Hauks, Kristinn Jóhannesson og Ingvar Viktors.